Staða Fjarðarheiðarganga og fjárveitingar í nýjustu samgönguáætlun voru rædd á fundi bæjarráðs miðvikudaginn 3.júní síðastliðinn. Á fundinum áréttaði bæjarráð sérstaklega sjónarmið bæjarstjórnar Seyðisfjarðar varðandi Fjarðarheiðargöng með eftirfarandi ályktun:
„Í samgönguáætlun 2015-2018 er gert ráð fyrir 70 milljónum króna á ári til rannsókna við Seyðisfjarðargöng undir Fjarðarheiði. Bæjarráð Seyðisfjarðar leggur megináherslu á að rannsóknarborunum vegna ganganna verði lokið á árinu 2015 til að unnt verði að vinna áfram að úrvinnslu og hönnun á næstu tveimur árum. Bæjarráð skorar því á umhverfis- og samgöngunefnd að leggja til að færðir verði fjármunir innan áætlunarinnar með það að leiðarljósi. Bæjarráð bendir á að líkur eru á að þannig náist betri nýting rannsóknarfjárins.“