Formaður bæjarráðs Fjarðabyggðar lýsti í kvöldfréttum RÚV (9.júlí) þeirri skoðun að betra væri að byrja á göngum frá Seyðisfirði til Norðfjarðar í gegnum Mjóafjörð með tengingu upp á Fagradal, eða svokölluðum T-göngum. Formaður bæjarráðs Seyðisfjarðar, Margrét Guðjónsdóttir, segir að slík göng muni hvorki tryggja betri né tryggari vetrarsamgöngur: ” Í ljósi þess sem fram kom í viðtali við formann bæjarráðs Fjarðarbyggðar í fréttum RÚV í kvöld um gangakosti til og frá Seyðisfirði finnst mér rétt að árétta að skv. skýrslu verkfræðistofunnar Eflu frá 2011, er BESTA TENGING fjarðanna á mið-Austurlandi við Hérað fengin með Fjarðarheiðargöngum og göngum suður í Mjóafjörð og þaðan yfir í Norðfjörð. EKKI göng undir Mjóafjarðarheiði.” Slík tenging gefur möguleika á bestu hringtengingu sjávarbyggðanna á mið-Austurlandi til framtíðar við Hérað.
Seyðfirðingar hafa lengi barist fyrir jarðgöngum en bæjarbúar eru ósjaldan innlyksa á veturna og mikið er um að fólk lendi í vandræðum á ófærri Fjarðarheiði. Nú þegar hefur farið fram rannsóknarboranir á Fjarðarheiði sem benda til þess að engar meiriháttar hindranir séu í berginu í Fjarðarheiði.
Seyðisfjörður ætti ekki að verða endastöð – heldur miklu frekar hluti af öflugri og öruggari samgöngum sjávarbyggða á mið-Austurlandi við Hérað.
Frétt um málið af vef Austurfréttar má finna hér
Frétt úr kvöldfréttum RÚV má sjá hér