Tilkynning frá bæjarráði Seyðisfjarðar vegna ummæla Ólafs Guðmundssonar

Í útvarpsþættinum í Bítið á Bylgjunni þann 14.07.15 mætti Ólafur Guðmundsson frá FBÍ í viðtal, en hann er varaformaður stjórnar félagsins.

Vegna umfjöllunar hans um Fjarðarheiðargöng og vegalengdir í mögulegum jarðgangakostum á Austurlandi vill bæjarráð Seyðisfjarðar koma eftirfarandi á framfæri.

Um vegalengdir

  • Ólafur hélt því fram að göng milli Seyðisfjarðar og Norðfjarðar (um Mjóafjörð) yrðu tvisvar sinnum 5 kílómetrar. Ekki er vitað við hvað hann miðaði en sé miðað við lengdir ganga í skýrslu sem verkfræðistofan Efla vann fyrir Vegagerðina og kom út í janúar 2011 um jarðgangakosti á Austurlandi gætu göng milli Seyðisfjarðar og Mjóafjarðar verið 5,3 – 5,5 kílómetrar og göng milli Mjóafjarðar og Norðfjarðar 6 – 6,8 kílómetrar, samanlagt því 11,3 til 12,3 km
  • Ólaf minnti Fáskrúðsfjarðargöng vera 3,7 kílómetrar en samkvæmt heimasíðu Vegagerðarinnar eru þau 5,9 kílómetrar.
  • Ólafur heldur því fram að Norðfjarðargöngin yrðu 6 kílómetrar. Þau munu verða 7,5 kílómetrar án vegskála sem ætlað er að verði 366 metrar og að þegar hafa verið grafnir 7 kílómetrar í Norðfjarðargöngum.

Tengingin við Hérað

Með Fjarðarheiðargöngum og seinna göngum úr Seyðisfirði í Mjóafjörð og þaðan í Norðfjörð er fengin besta lausn á vetrarsamgöngum vegna Fagradals og Fjarðarheiðar sem völ er á. Á leiðinni um Fagradal er á veturna glímt við hálku, ófærð og stundum snjóflóðahættu. Það er misskilningur að tala um leiðina um Fagradal sem láglendisveg.  Aðrir kostir til lausnar tengingar við Hérað eru lakari en Fjarðarheiðargöngin. Í því sambandi hefur helst verið nefndur sá kostur að gera göng úr Mjóafirði í Eyvindarárdal 8,9 – 9,2 kílómetra löng en skv. fyrrnefndri skýrslu Eflu kemur fram varðandi samanburð á annars vegar göngum undir Fjarðarheiði og hins vegar úr Mjóafirði að:

„sáralítill munur [er] í vegalengd milli Neskaupstaðar og Egilsstaða eftir því hvort tenging upp á Hérað er með göngum undir Mjóafjarðarheiði eða Fjarðarheiði, munar um 1 km þar á milli og er styttra að fara undir Fjarðarheiðina. Sama á við um þéttbýlin Eskifjörð og Reyðarfjörð, það munar 1-2 km í vegalengd til Egilsstaða eftir því hvort farið er undir Fjarðarheiði eða Mjóafjarðarheiði.
1-2 km munur í vegalengd er ekki mikill og m.t.t. vegalengdar ætti það ekki að skipta íbúa þessara byggðarlaga miklu máli hvort hugsanleg tenging upp á Hérað færi undir Mjóafjarðarheiði eða Fjarðarheiði. Vegalengd frá Seyðisfirði til Egilsstaða um Fjarðarheiðargöng er áætluð um 21-27,5 km miðað við göng milli mismunandi munnasvæða (sbr. tafla 6), en 22 km miðað við munnasvæði sem hér eru valin til samanburðar. Vegalengd milli Seyðisfjarðar og Egilsstaða með göngum undir Mjóafjarðarheiði er um 36 km og er því um 14 km lengri en leiðin undir Fjarðarheiði. Það gefur því auga leið að það munar miklu fyrir Seyðfirðinga að tenging fyrir byggðarlög við sjávarsíðuna upp á Hérað sé undir Fjarðarheiði. Með tengingu byggðarlaganna við Hérað með göngum undir Fjarðarheiði fæst mun betri hringtenging milli allra byggðarlaganna heldur en með tengingu undir Mjóafjarðarheiði. Með Mjóafjarðartengingu yrði Seyðisfjörður gerður að endastöð. Í þessum samanburði eru sömu göng notuð til að tengja saman Seyðisfjörð og Mjóafjörð og Mjóafjörð og Fannardal (Norðfjörð). Munur í lengd jarðganga milli samgöngumynstranna liggur því fyrst og fremst í lengd ganga undir Fjarðarheiði og Mjóafjaðarheiði. Líkleg lengd ganga undir Fjarðarheiði er um 12,5 km á móti 9,2 km undir Mjóafjarðarheiði. Það munar því rúmum 3 km í lengd jarðganga milli samgöngumynstra. Göng undir Fjarðarheiði stytta hins vegar vegalengdina frá Seyðisfirði upp á Hérað umtalsvert samanborið við göng undir Mjóafjarðarheiði.“ (bls. 26 og 27).

Einangrun rofin

Ólafur taldi að Fjarðarheiðin væri oftast fær nema bara um háveturinn. Sá hávetur getur staðið skilgreiningarlega í 6 – 8 mánuði og ef ekki kæmi til stórkostleg tækniundur í snjómokstri og dugnaður hlutaðeigandi veghaldara væri ófært um Fjarðarheiði meira og minna. Dæmi eru um 30 daga ófæra og 15 til viðbótar þungfæra og nánast ófæra vegna veðurs á 5 mánaða tímabili.

Það er mat manna sem til þekkja að vetrarfærð sé erfið í Eyvindarárdal og um nokkurn veg að fara þar til Egilsstaða. Því myndu göng úr Mjóafirði ekki leysa þann vanda sem vetrarfærð hefur í för með sér, fyrir utan hversu leiðin milli Seyðisfjarðar myndi lengjast eins og áður kemur fram.

Umræða og rannsóknir

Niðurstaðan að velja Fjarðarheiðargöng umfram aðra kosti byggir á ítarlegri umfjöllun  Austfirðinga og fagaðila til fjölda ára og samanburði á lausnum á samgöngumálum á Austurlandi með heildarsýn í huga. Norðfjarðargöngin eru hluti af þeirri sýn, þó Ólafur haldi öðru fram í viðtalinu. Að auki er vert að nefna að á aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Austurlandi síðastliðið haust var eftirfarandi ályktun samþykkt um Fjarðarheiðargöng.  „Aðalfundur SSA haldinn á Vopnafirði dagana 19 og 20. september 2014 fagnar gerð jarðganga milli Eskifjarðar og Neskaupstaðar en leggur um leið þunga áherslu á að næsta forgangsmál í jarðgangagerð hér á landi verði Seyðisfjarðargöng undir Fjarðarheiði. Í ljósi aðstæðna íbúa á Seyðisfirði í vegamálum að vetrinum er brýnt að ljúka rannsóknum á Fjarðarheiði hið fyrsta.”

 Að mörgu er að hyggja við undirbúning jarðganga og meðal annars mögulegum vatnsleka í göngum. Þess vegna fara fram ítarlegar rannsóknir á aðstæðum og bergi, meðal annars með borunum. Rannsóknirnar hafa gengið vel til þessa og þegar lýtur út fyrir að aðstæður til gangagerðar séu ákjósanlegar.

Ekki verður heldur horft fram hjá því að á Fljótsdalshéraði er samgöngumiðstöð Austurlands þar sem leiðir liggja til allra átta með flugvelli fyrir innanlands- og millilandaflug.

  1. júlí 2015

Bæjarráð Seyðisfjarðar.

Viðbót: Bæjarráði Seyðisfjarðar hefur borist tilkynning frá FÍB þess efnis að í viðtalinu hafi Ólafur lýst eigin skoðunum en ekki sjónarmiðum FÍB. Því er hér með komið á framfæri.