Formaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis, Höskuldur Þórhallsson, sagði í hádegisfréttum Bylgjunnar í dag (13.júlí) það raunhæft að áætla að Fjarðarheiðargöng verði tilbúin til útboðs á næsta ári, eða því þarnæsta. Slíkt kæmi til móts við Seyðfirðinga, sem krefjast þess að að framkvæmdin sé sett í forgang.
Árið 2012 var lögð fram þingsályktunartillaga á Alþingi um að göngin yrðu sett í forgang. Tillagan var lögð fram af sex þingmönnum, m.a. af Ólöfu Nordal, núverandi samgönguráðherra og Höskuldi Þórhallssyni, þingmanni Framsóknar í Norðaustur kjördæmi og formanni umhverfis- og samgöngunefndar. Höskuldur segir raunverulegan skrið vera kominn á málið núna og greindi jafnframt frá því að ákveðið hefði verið að færa til fé þannig að hægt verði að ljúka rannsóknarborunum fyrr en ella. Með þessu er vonast til þess að hægt verði að klára tilraunaboranir við Fjarðarheiði og er, samkvæmt Höskuldi, vilji fyrir því að halda áfram með verkið inni á Alþingi. Með þessu ættu Fjarðarheiðargöng að verða tilbúin til útboðs fyrr en áætlað var, jafnvel á næsta ári.