Bókun frá 1730.fundi bæjarstjórnar vegna Fjarðarheiðarganga

Í ljósi aðstæðna undanfarinna daga; innilokunar Seyðfirðinga og mikillar ófærðar almennt, lagði bæjarstjórn Seyðisfjarðarkaupstaðar eftirfarandi bókun fram á fundi sínum í gær, miðvikudaginn 24. janúar

„Undanfarna daga hefur óveður gengið yfir landið. Því hafa fylgt talsverðar truflanir á samgöngum og hafa Seyðfirðingar ekki farið varhluta af því sem venja er við slíkar aðstæður. 

Fjarðarheiðin hefur verið ófær eða lokuð í á þriðja sólarhring og bíður fjöldi ferðamanna og flutningabíla eftir að komast til og frá ferjunni Norröna, auk hefðbundinnar umferðar vegna atvinnu-, skóla- og þjónustusóknar. 

Viðvörun frá Veðurstofu Íslands þar sem snjóflóðahætta er metin mikil var gefin út á svæðinu enda hafa tvö snjóflóð fallið í Seyðisfirði, rétt fyrir utan byggð í gærkvöldi en um var að ræða meðalstór flóð. 

Frá því í nóvember hafa veðurofsi og verulegar truflanir á samgöngum ríkt bæði á Fagradal og Fjarðarheiði. Það sýnir að samgöngur til og frá Seyðisfirði yrðu eftir sem áður jafn ótryggar og óöruggar ef göng undir Fjarðarheiði yrðu látin víkja fyrir lakari kostum svo sem göngum undir  Mjóafjarðarheiði eða beint til suðurs yfir í Fannardal. 

Bæjarstjórn minnir því enn og aftur á mikilvægi þess, þó ekki sé nema af framangreindum ástæðum, að tekin verði ákvörðun um tímasetningu framkvæmda við Fjarðarheiðargöng. Samkvæmt núgildandi samgönguáætlun er gert ráð fyrir að Fjarðarheiðargöng verði næsta jarðgangaframkvæmd á eftir Dýrafjarðargöngum og því löngu tímabært að ákvarðanir liggi fyrir um upphaf framkvæmda.”

27073032_10212417941818513_8015185839833740087_n

Fundargerð bæjarstjórnarfundarins má finna á vef Seyðisfjarðarkaupstaðar