Fjarðarheiðargöng: Bættar samgöngur og aðgengi að heitu vatni

Í frétt RÚV 25.apríl var rætt við forstjóra RARIK um mögulega lokun á fjarvarmaveitu á Seyðisfirði. RARIK er í talsverðum vandræðum með fjarvarmaveituna á Seyðisfirði og forstjóri RARIK, Tryggvi Þór Haraldsson, segir að fyrirtækið sjái í raun ekki mikla framtíð slíkum veitum.

Í vor mun RARIK hefja könnunarboranir eftir heitu vatni á Fjarðarheiði í samstarfi við Vegagerðina, sem undirbýr möguleg Fjarðarheiðargöng.

Litlar vonir eru taldar á því að heitt vatn finnist eða að varmadælur dugi til að halda kerfinu gangandi fyrir Seyðfirðinga. „Nú þriðji kosturinn er síðan að ef það verða göng upp á Hérað; að menn tengist bara Hitaveitu Egilsstaða og Fella. Ef að það lægi fyrir og ákvörðun um slíkt,“ segir Tryggvi þór.

Hinum megin við Fjarðarheiði eru Héraðsbúar með bæði heitt og kalt vatn handa Seyðfirðingum og gætu göng haft mikil áhrif á líf Seyðfirðinga, ekki bara með bættum samgöngum heldur einnig aðgengi að heitu og köldu vatni.