Vel hefur gengið við rannsóknarboranir

Vel hefur gengið við könnun jarðlaga, en tveir sænskir bormenn hafa síðustu vikur verið við störf utan í Fjarðarheiði í þeim tilgangi að safna jarðsýnum af hugsanlegum stæðum fyrir gangamunna Fjarðarheiðarganga.

Það er fyrirtækið Alvarr ehf sem annast þessar boranir, í samstarfi við sænska félagið Drillcon AB. Verkið var boðið út af Vegagerðinni fyrr á árinu.

Bormenn hafa nú verið að störfum Seyðisfjarðarmegin, skammt frá skíðasvæðinu í Stafdal, þar sem bora á 170 metra djúpa holu. Fyrsta holan er nokkru neðar og er hún um 350 metra djúp. Einnig hefur hola verið boruð Egilsstaðamegin, sem er um 300 metrar á dýpt.

Vonast er til að rannsóknarborunum ljúki um miðjan september, en þá verður unnið úr niðurstöðum og sýnum.

Austurfrétt fjallaði um málið, hér.