Ályktun bæjarstjórnar Seyðisfjarðar um Fjarðarheiðargöng

Bæjarstjórn samþykkti eftirfarandi ályktun um Fjarðarheiðargöng á fundi sínum 11. janúar síðastliðinn:

Bæjarstjórn Seyðisfjarðarkaupstaðar skorar á Alþingi og ríkisstjórn að nú þegar verði skilgreindir  nægir fjármunir til að ljúka rannsóknaráætlun vegna Seyðisfjarðarganga undir Fjarðarheiði (Fjarðarheiðargöng) sem þegar er langt á veg komin, í samræmi við samgönguáætlun 2015 til 2018.

Með hliðsjón af óvissu um framhald verkefnisins vegna óskilgreindra fjárheimilda í fjárlögum fyrir árið 2017, er brýnt að tryggt verði að vinna við þetta mikilvæga samgönguverkefni verði ekki rofin.
Þess ber að minnast að lögð er sérstök áhersla á áframhaldandi rannsóknir og framkvæmd verkefnisins í nefndaráliti meirihluta Umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis um tillögu til þingsályktunar um fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2015– 2018 frá 14. september 2016. Þar segir í kafla um jarðgöng: „Nú er unnið að framkvæmdum við gerð Norðfjarðarganga. Framkvæmdir hófust árið 2013 og áætlað er að þeim ljúki 2017. Er þá lagt til að framkvæmdir verði hafnar við Dýrafjarðargöng milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar á Vestfjörðum. Meirihluti nefndarinnar áréttar að svo að hægt verði að hefja framkvæmdir við Dýrafjarðargöng þurfi heimild í fjárlögum og samþykkta samgönguáætlun. Þá er á árunum 2015–2018 gert ráð fyrir að unnið verði að jarðfræðirannsóknum í væntanlegu gangastæði Seyðisfjarðarganga en meirihlutinn telur að svigrúm sé nú til staðar til að hefja gerð Seyðisfjarðarganga samhliða gerð Dýrafjarðarganga.“

Ennfremur vill bæjarstjórn benda á þann mikla stuðning er Fjarðarheiðargöng hafa hlotið frá öllum landshlutum á samráðsfundum við gerð Samgöngu- og fjarskiptaáætlunar. Á meðfylgjandi mynd sem fengin er af vef Innanríkisráðuneytisins sést að göng milli Seyðisfjarðar og Héraðs hafa notið einna mest fylgis með næstflestar ábendingar.

 Sey-fj.göng110117

 

Tillagan samþykkt með 7 greiddum atkvæðum.