Fjarðarheiðargöng- einangrun Seyðisfjarðar rofin

fjarðarheiði

Grein þessi, eftir fyrrverandi og núverandi bæjarstjóra á Seyðisfirði frá 1974-2017, birtist í Morgunblaðinu þann 13.september 2017.

Enginn þéttbýlisstaður, með viðlíkan umferðarþunga að og frá um háan fjallveg Fjarðarheiði (600 m), hefur beðið jafn lengi eftir varanlegum öruggum heilsárs samgöngum. Vegna þessa hefur allri þróun og eflingu atvinnulífs sífellt verið ógnað. Fjárfestar sniðganga staðinn, hann einangrast og öryggisleysið sem fylgir leiðir til atgerfisflótta. Nú er mál að linni ef ekki á verr að fara.

Ef skoðuð er þróunin hjá „einangruðustu þéttbýlisstöðunum“ frá 1970 til dagsins í dag, þá er hún þessi:
Vestfirðir : Bolungarvík – Ísafjörður = gerð þrenn jarðgöng.
Norðurland : Siglufjörður = gerð tvenn jarðgöng. Ólafsfjörður = gerð tvenn jarðgöng.
Austurland : Neskaupstaður (Oddsskarð) = gerð tvenn jarðgöng. Seyðisfjörður (Fjarðarheiði) = engin varanleg lausn .

Færeyskar fólks-og bílferjur hafa siglt frá árinu 1975 til og frá Seyðisfirði eða í 42 ár. Norröna siglir allt árið frá 2003 og kemur vikulega til hafnar á Seyðisfirði. Árlegur farþegafjöldi fram og til baka nemur því að fylla rúmlega eina Boengflugþotu alla virka daga ársins. Vöruflutningar aukast stöðugt.

Höfnin er langstærsta skemmtiferðaskipahöfn Austurlands. Fjórða á landsvísu. 45 skip koma í ár. Það stefnir í 60 skipakomur árið 2018. Á einum sólahring hafa til dæmis komið 3 skip með um 5000 manns. Margir fara dagsferðir til Héraðs og til baka um Fjarðarheiði. Höfnin, með öfluga móttöku ferðafólks og sjávarafurða, er lífæð staðarins.

Egilsstaðaflugvöllur er varaflugvöllur fyrir millilandaflug, að og frá Íslandi, með vaxandi möguleikum í flutningum. Samstarfs- og samlegðaráhrif við Seyðisfjarðarhöfn, sem er önnur gátt inn og út úr landinu fyrir ferðafólk og vörur, er því augljós. Öruggar heilsárs samgöngur milli flugvallar og hafnar skiptir þar megin máli.

Talið er að um 80% umferðar yfir Fjarðarheiðina sæki til Héraðs, á flugvöll, áleiðis norður í Mývatnssveit, suður Öxi eða til Borgafjarðar eystri. En 20% umferðarinnar sækir yfir Fagradal  í Fjarðabyggð og áfram suður firði.

Ferðamálastofa áætlar að til Seyðisfjarðar komi 275.000 ferðamenn í ár og um 17% þeirra gisti á Seyðisfirði. Íbúar á Seyðisfirði eru 650.  

Með Fjarðarheiðargöngum verða ca. 18-20 km á flugvöll á Egilsstöðum. Fram og til baka 36-40km.

Fjarðaleiðin svonefnda, suður úr Seyðisfirði, leysir ekki Fjarðarheiðina. Hún  kallar á tvenn jarðgöng (alls 12.0 km) með 4 gangamunna. Til Mjóafjarðar (5.5 km) og áfram (6.5 km) í ný Norðfjarðargöng til Eskifjarðar og Reyðarfjarðar, yfir Fagradal til Egilsstaða alls um 70 km. Það gerir 140 km fram og til baka. Fyrir akandi umferð er það lenging, miðað við  Fjarðarheiðargöng, um 100 km. Þeirri leið hefur því alfarið verið hafnað sem næstu forgangsframkæmd í jarðgangagerð á Austurlandi.   

Lengd Fjarðarheiðarganga, 12-13 km, er engin fyrirstaða í gangagerð í dag. Lærdalsgöngin í Noregi sem eru helmingi lengri, 24 km, voru opnuð fyrir 17 árum. Nýlega er hafin framkvæmd á  Rogfastgöngum, 27 km löngum neðansjávargöngum í Noregi. Færeyingar eru byrjaðir á rúmlega 12 km löngum neðansjávargöngum og eru með í undirbúningi til Sandeyjar neðansjávargöng sem verða enn lengri.

Öllu tali um að Fjarðarheiðargöng, sem næstu göng, þjóni ekki hagsmunum alls Austurlands einungis Seyðfirðingum, er vísað til föðurhúsanna með vísan í framanritaðar staðreyndir. Ekki er talað um að Norðfjarðargöng þjóni bara hagsmunum Norðfirðinga enda fráleitt að setja slíkt fram. Öruggar heilsárs samgöngur eru nútíma mannréttindi.

Seyðfirðingar sækja í vaxandi mæli þjónustu til Fljótsdalshéraðs sem er miðstöð verslunar, þjónustu og samganga á Austurlandi. Samvinna og samgangur hefur og er því mikill milli sveitarfélaganna. Vaxandi áhugi á báðum stöðum er fyrir að skoða enn frekari samvinnu og sameiningu sveitarfélaganna. Meðal annars hefur verð rætt um að kalt neysluvatn og heitt vatn frá Hitaveita EF  tengist til Seyðisfjarðar í gegnum Fjarðarheiðargöng, en kaupstaðurinn fellur undir svonefnd  „köld svæði“.

Sveitarfélögin á Austurlandi hafa, með árlegum samþykktum sínum (SSA  árin 2014-2015-2016) um jarðgöng á Austurlandi, ályktað að Fjarðarheiðargöng verði forgangsverkefni að loknum Norðfjarðargöngum. Það er svo ítekað í nýrri, samhljóða, samþykkt stjórnar SSA frá 29. ágúst síðast liðnumÞingmenn Austurlands, allir sem einn, hafa stutt þá forgangsröðun.

Niðurstaðan að velja Fjarðarheiðargöng, sem nú þegar er í samgönguáætlun, byggir á ítarlegri umfjöllun Austfirðinga og fagaðila til fjölda ára og samanburða á lausnum á samgöngumálum á Austurlandi með heildarsýn á málaflokkinn í huga. Vilji Seyðfirðinga, bæjarstjórnar Seyðisfjarðar og sveitarfélaga á Austurlandi er að samgönguyfirvöld og Alþingi Íslendinga virði þessa niðurstöðu.                                                                                        

Við undirritaðir óskum öllum Austfirðingum til hamingju með opnun Norðfjarðarganga nú í haust. Norðlendingum með opnun Vaðlaheiðarganga þegar þar að kemur. Einnig Vestfirðingum, nú við upphaf Dýrafjarðarganga.

Í upphafi septembermánaðar 2017.

Fyrrverandi og núverandi bæjarstjórar Seyðisfjarðarkaupstaðar :

Jónas Hallgrimsson, bæjarstjóri 1974-1984.
Þorvaldur Jóhannsson, bæjarstjóri 1984-1998.
Ólafur Hr. Sigurðsson, bæjarstjóri 1998-2002 og 2006-2011.
Tryggvi Harðarson, bæjarstjóri 2002-2006.
Vilhjálmur Jónsson, núverandi bæjarstjóri frá 2011.