Author Archives: Umsjónarmaður vefsíðu

Mikilvægt að sveitarfélögin á Austurlandi standi vörð um þær áherslur sem þau hafa orðið sammál um

Á fundi bæjarráðs Fljótsdalshéraðs mánudaginn 20. júlí var farið yfir stöðu mála vegna fyrirhugaðrar jarðgangagerðar undir Fjarðarheiði.

Í framhaldi af umræðu um málið var samþykkt eftirfarandi bókun:
„Bæjarráð Fljótsdalshéraðs leggur áherslu á mikilvægi þess að sveitarfélögin á Austurlandi standi vörð um þær áherslur er þau hafa orðið sammála um á sínum sameiginlega vettvangi. Í samgöngumálum var m.a. samþykkt samhljóða á aðalfundi SSA sl. haust að næsta verkefni í jarðgangagerð yrðu Seyðisfjarðargöng undir Fjarðarheiði og að jafnframt yrði sett fjármagn í rannsóknir á gangakostum til tengingar miðsvæðis Austurlands.

Í umræðu undanfarinna daga, m.a. í fjölmiðlum, hefur því verið haldið fram að annað en fagleg sjónarmið ráði för í stefnumótun varðandi gangagerð á Austurlandi. Bæjarráð Fljótsdalshéraðs mótmælir þessu og bendir á að þessi sameiginlega áhersla sveitarfélaganna byggi á gögnum og úttekt viðurkenndra og óháðra fagaðila á þeim valkostum sem eru í stöðunni og unnin var fyrir Vegagerðina.“

Tekið af vefsíðu Fljótsdalshéraðs.

Fjarðarheiðargöng leysa best ótryggar og óöruggar samgöngur Seyðfirðinga

Margrét Guðjónsdóttir, formaður bæjarráðs Seyðisfjarðar, segir í viðtali við DV (Helgarblað DV 17.-20.júlí 2015) að göng frá Seyðisfirði yfir í Mjóafjörð og áfram á Neskaupsstað leysi ekki þann samgönguvanda sem að Seyðfirðingar standa frammi fyrir.
Fjarðarheiðargöng ættu að verða annar leggurinn í röð jarðganga sem tengja firðina á mið-Austurlandi við Hérað, á eftir nýjum Norðfjarðargöngum. Með tilkomu Fjarðarheiðarganga er opið fyrir áframhaldandi gangatengingar innan svæðisins og sem seinna geta falið í sér göng sem tengja Norðfjarðar- og Fjarðarheiðargöng saman um Mjóafjörð.

Samanburður hugsanlegra samgöngumynstra. Firðir tengdir saman með jarðgöngum auk tengingar upp á Hérað, annars vegar með göngum undir Mjóafjarðarheiði en hins vegar með göngum undir Fjarðarheiði.

Samanburður hugsanlegra samgöngumynstra. 

Göng undir Fjarðarheiði er sá leggur sem best leysir ótryggar og óöruggar samgöngur Seyðfirðinga til framtíðar og þá erfiðleika sem skapast þegar þjóðbrautin til og frá Evrópu liggur í um og yfir 600 metra hæð yfir sjávarmáli. 
Fjarðarheiðargöng hafa verið sett fremst á forgangslista jarðganga á Austurlandi í kjölfar Norðfjarðarganga . Sveitarfélög á Austurlandi hafa stutt þá forgangsröðun á sameiginlegum vettvangi sveitarfélaga á Austurlandi í ályktunum SSA undan farin ár.

Byggðalagið stendur og fellur með göngum

Vilhjálmur Jónsson, bæjarstjóri á Seyðisfirði, var í símaviðtali við þáttastjórnendur á Bylgjunni í dag (20.07.2015), en til umfjöllunar var umræða frá síðustu viku um Fjarðarheiðargöng og göng almennt á Austurlandi.
Vilhjálmur segist sáttur við umræðu jarðgöng og hvetur jafnframt til þess að rannsóknum verði haldið áfram af krafti á Fjarðarheiði, enda mikið í húfi fyrir Seyðfirðinga. Hugsa verður til framtíðar varðandi þróun byggðalagsins, sér í lagi hvað varðar ungt fólk á svæðinu.
Vilhjálmur benti einnig á að þjónusta á svæðinu hefur breyst umtalsvert á síðustu árum og má þar til dæmis nefna breytingar í heilbrigðisþjónusta og ferðaþjónusta, sem kalla á öruggari samgöngur – allan ársins hring.

Hlusta má á viðtalið hér

Raunhæft og skynsamlegt að bora göng undir Fjarðarheiði

Höskuldur Þórhallsson, formaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis ræddi við þáttastjórnendur Í bítið á Bylgjunni í dag (15.07.2015) um Fjarðarheiðargöng. Höskuldur telur það mjög raunhæft og skynsamlegt að bora göng undir Fjarðarheiði, enda meta sérfræðingar Vegagerðarinnar það þannig að göng milli Seyðisfjarðar og Egilsstaða séu besti kosturinn í stöðunni. Að auki nefnir Höskuldur að það sé pólitískur vilji til þess að fara í framkvæmdirnar.
Hlusta má á viðtalið hér.

Tilkynning frá bæjarráði Seyðisfjarðar vegna ummæla Ólafs Guðmundssonar

Í útvarpsþættinum í Bítið á Bylgjunni þann 14.07.15 mætti Ólafur Guðmundsson frá FBÍ í viðtal, en hann er varaformaður stjórnar félagsins.

Vegna umfjöllunar hans um Fjarðarheiðargöng og vegalengdir í mögulegum jarðgangakostum á Austurlandi vill bæjarráð Seyðisfjarðar koma eftirfarandi á framfæri.

Um vegalengdir

  • Ólafur hélt því fram að göng milli Seyðisfjarðar og Norðfjarðar (um Mjóafjörð) yrðu tvisvar sinnum 5 kílómetrar. Ekki er vitað við hvað hann miðaði en sé miðað við lengdir ganga í skýrslu sem verkfræðistofan Efla vann fyrir Vegagerðina og kom út í janúar 2011 um jarðgangakosti á Austurlandi gætu göng milli Seyðisfjarðar og Mjóafjarðar verið 5,3 – 5,5 kílómetrar og göng milli Mjóafjarðar og Norðfjarðar 6 – 6,8 kílómetrar, samanlagt því 11,3 til 12,3 km
  • Ólaf minnti Fáskrúðsfjarðargöng vera 3,7 kílómetrar en samkvæmt heimasíðu Vegagerðarinnar eru þau 5,9 kílómetrar.
  • Ólafur heldur því fram að Norðfjarðargöngin yrðu 6 kílómetrar. Þau munu verða 7,5 kílómetrar án vegskála sem ætlað er að verði 366 metrar og að þegar hafa verið grafnir 7 kílómetrar í Norðfjarðargöngum.

Tengingin við Hérað

Með Fjarðarheiðargöngum og seinna göngum úr Seyðisfirði í Mjóafjörð og þaðan í Norðfjörð er fengin besta lausn á vetrarsamgöngum vegna Fagradals og Fjarðarheiðar sem völ er á. Á leiðinni um Fagradal er á veturna glímt við hálku, ófærð og stundum snjóflóðahættu. Það er misskilningur að tala um leiðina um Fagradal sem láglendisveg.  Aðrir kostir til lausnar tengingar við Hérað eru lakari en Fjarðarheiðargöngin. Í því sambandi hefur helst verið nefndur sá kostur að gera göng úr Mjóafirði í Eyvindarárdal 8,9 – 9,2 kílómetra löng en skv. fyrrnefndri skýrslu Eflu kemur fram varðandi samanburð á annars vegar göngum undir Fjarðarheiði og hins vegar úr Mjóafirði að:

„sáralítill munur [er] í vegalengd milli Neskaupstaðar og Egilsstaða eftir því hvort tenging upp á Hérað er með göngum undir Mjóafjarðarheiði eða Fjarðarheiði, munar um 1 km þar á milli og er styttra að fara undir Fjarðarheiðina. Sama á við um þéttbýlin Eskifjörð og Reyðarfjörð, það munar 1-2 km í vegalengd til Egilsstaða eftir því hvort farið er undir Fjarðarheiði eða Mjóafjarðarheiði.
1-2 km munur í vegalengd er ekki mikill og m.t.t. vegalengdar ætti það ekki að skipta íbúa þessara byggðarlaga miklu máli hvort hugsanleg tenging upp á Hérað færi undir Mjóafjarðarheiði eða Fjarðarheiði. Vegalengd frá Seyðisfirði til Egilsstaða um Fjarðarheiðargöng er áætluð um 21-27,5 km miðað við göng milli mismunandi munnasvæða (sbr. tafla 6), en 22 km miðað við munnasvæði sem hér eru valin til samanburðar. Vegalengd milli Seyðisfjarðar og Egilsstaða með göngum undir Mjóafjarðarheiði er um 36 km og er því um 14 km lengri en leiðin undir Fjarðarheiði. Það gefur því auga leið að það munar miklu fyrir Seyðfirðinga að tenging fyrir byggðarlög við sjávarsíðuna upp á Hérað sé undir Fjarðarheiði. Með tengingu byggðarlaganna við Hérað með göngum undir Fjarðarheiði fæst mun betri hringtenging milli allra byggðarlaganna heldur en með tengingu undir Mjóafjarðarheiði. Með Mjóafjarðartengingu yrði Seyðisfjörður gerður að endastöð. Í þessum samanburði eru sömu göng notuð til að tengja saman Seyðisfjörð og Mjóafjörð og Mjóafjörð og Fannardal (Norðfjörð). Munur í lengd jarðganga milli samgöngumynstranna liggur því fyrst og fremst í lengd ganga undir Fjarðarheiði og Mjóafjaðarheiði. Líkleg lengd ganga undir Fjarðarheiði er um 12,5 km á móti 9,2 km undir Mjóafjarðarheiði. Það munar því rúmum 3 km í lengd jarðganga milli samgöngumynstra. Göng undir Fjarðarheiði stytta hins vegar vegalengdina frá Seyðisfirði upp á Hérað umtalsvert samanborið við göng undir Mjóafjarðarheiði.“ (bls. 26 og 27).

Einangrun rofin

Ólafur taldi að Fjarðarheiðin væri oftast fær nema bara um háveturinn. Sá hávetur getur staðið skilgreiningarlega í 6 – 8 mánuði og ef ekki kæmi til stórkostleg tækniundur í snjómokstri og dugnaður hlutaðeigandi veghaldara væri ófært um Fjarðarheiði meira og minna. Dæmi eru um 30 daga ófæra og 15 til viðbótar þungfæra og nánast ófæra vegna veðurs á 5 mánaða tímabili.

Það er mat manna sem til þekkja að vetrarfærð sé erfið í Eyvindarárdal og um nokkurn veg að fara þar til Egilsstaða. Því myndu göng úr Mjóafirði ekki leysa þann vanda sem vetrarfærð hefur í för með sér, fyrir utan hversu leiðin milli Seyðisfjarðar myndi lengjast eins og áður kemur fram.

Umræða og rannsóknir

Niðurstaðan að velja Fjarðarheiðargöng umfram aðra kosti byggir á ítarlegri umfjöllun  Austfirðinga og fagaðila til fjölda ára og samanburði á lausnum á samgöngumálum á Austurlandi með heildarsýn í huga. Norðfjarðargöngin eru hluti af þeirri sýn, þó Ólafur haldi öðru fram í viðtalinu. Að auki er vert að nefna að á aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Austurlandi síðastliðið haust var eftirfarandi ályktun samþykkt um Fjarðarheiðargöng.  „Aðalfundur SSA haldinn á Vopnafirði dagana 19 og 20. september 2014 fagnar gerð jarðganga milli Eskifjarðar og Neskaupstaðar en leggur um leið þunga áherslu á að næsta forgangsmál í jarðgangagerð hér á landi verði Seyðisfjarðargöng undir Fjarðarheiði. Í ljósi aðstæðna íbúa á Seyðisfirði í vegamálum að vetrinum er brýnt að ljúka rannsóknum á Fjarðarheiði hið fyrsta.”

 Að mörgu er að hyggja við undirbúning jarðganga og meðal annars mögulegum vatnsleka í göngum. Þess vegna fara fram ítarlegar rannsóknir á aðstæðum og bergi, meðal annars með borunum. Rannsóknirnar hafa gengið vel til þessa og þegar lýtur út fyrir að aðstæður til gangagerðar séu ákjósanlegar.

Ekki verður heldur horft fram hjá því að á Fljótsdalshéraði er samgöngumiðstöð Austurlands þar sem leiðir liggja til allra átta með flugvelli fyrir innanlands- og millilandaflug.

  1. júlí 2015

Bæjarráð Seyðisfjarðar.

Viðbót: Bæjarráði Seyðisfjarðar hefur borist tilkynning frá FÍB þess efnis að í viðtalinu hafi Ólafur lýst eigin skoðunum en ekki sjónarmiðum FÍB. Því er hér með komið á framfæri.

Vilji inni á Alþingi til þess að klára verkið

Formaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis, Höskuldur Þórhallsson, sagði í hádegisfréttum Bylgjunnar í dag (13.júlí) það raunhæft að áætla að Fjarðarheiðargöng verði tilbúin til útboðs á næsta ári, eða því þarnæsta. Slíkt kæmi til móts við Seyðfirðinga, sem krefjast þess að að framkvæmdin sé sett í forgang.

Árið 2012 var lögð fram þingsályktunartillaga á Alþingi um að göngin yrðu sett í forgang. Tillagan var lögð fram af sex þingmönnum, m.a. af Ólöfu Nordal, núverandi samgönguráðherra og Höskuldi Þórhallssyni, þingmanni Framsóknar í Norðaustur kjördæmi og formanni umhverfis- og samgöngunefndar. Höskuldur segir raunverulegan skrið vera kominn á málið núna og greindi jafnframt frá því að ákveðið hefði verið að færa til fé þannig að hægt verði að ljúka rannsóknarborunum fyrr en ella. Með þessu er vonast til þess að hægt verði að klára tilraunaboranir við Fjarðarheiði og er, samkvæmt Höskuldi, vilji fyrir því að halda áfram með verkið inni á Alþingi. Með þessu ættu Fjarðarheiðargöng að verða tilbúin til útboðs fyrr en áætlað var, jafnvel á næsta ári.

Hlusta má á fréttina hér

Björgunarsveitin að störfum

Björgunarsveitin að störfum á Fjarðarheiði

Seyðisfjörður ætti ekki að verða endastöð

Formaður bæjarráðs Fjarðabyggðar lýsti í kvöldfréttum RÚV (9.júlí) þeirri skoðun að betra væri að byrja á göngum frá Seyðisfirði til Norðfjarðar í gegnum Mjóafjörð með tengingu upp á Fagradal, eða svokölluðum T-göngum. Formaður bæjarráðs Seyðisfjarðar, Margrét Guðjónsdóttir, segir að slík göng muni hvorki tryggja betri né tryggari vetrarsamgöngur: ” Í ljósi þess sem fram kom í viðtali við formann bæjarráðs Fjarðarbyggðar í fréttum RÚV í kvöld um gangakosti til og frá Seyðisfirði finnst mér rétt að árétta að skv. skýrslu verkfræðistofunnar Eflu frá 2011, er BESTA TENGING fjarðanna á mið-Austurlandi við Hérað fengin með Fjarðarheiðargöngum og göngum suður í Mjóafjörð og þaðan yfir í Norðfjörð. EKKI göng undir Mjóafjarðarheiði.” Slík tenging gefur möguleika á bestu hringtengingu sjávarbyggðanna á mið-Austurlandi til framtíðar við Hérað.

Ófært

Ófært

Seyðfirðingar hafa lengi barist fyrir jarðgöngum en bæjarbúar eru ósjaldan innlyksa á veturna og mikið er um að fólk lendi í vandræðum á ófærri Fjarðarheiði. Nú þegar hefur farið fram rannsóknarboranir á Fjarðarheiði sem benda til þess að engar meiriháttar hindranir séu í berginu í Fjarðarheiði.
Seyðisfjörður ætti ekki að verða endastöð – heldur miklu frekar hluti af öflugri og öruggari samgöngum sjávarbyggða á mið-Austurlandi við Hérað.

Frétt um málið af vef Austurfréttar má finna hér

Frétt úr kvöldfréttum RÚV má sjá hér 


Bæjarstjórn skorar á alþingismenn að styðja réttmætar kröfur Seyðfirðinga

Á 1699. bæjarstjórnarfundi Seyðisfjarðarkaupstaðar var eftirfarandi tillaga lögð fram:

„Bæjarstjórn tekur undir svohljóðandi ályktun bæjarráðs sem fram kemur í lið 1:
„Í samgönguáætlun 2015-2018 er gert ráð fyrir 70 milljónum króna á ári til rannsókna við Seyðisfjarðargöng undir Fjarðarheiði. Bæjarráð Seyðisfjarðar leggur megináherslu á að rannsóknarborunum vegna ganganna verði lokið á árinu 2015 til að unnt verði að vinna áfram að úrvinnslu og hönnun á næstu tveimur árum. Bæjarráð skorar því á umhverfis- og samgöngunefnd að leggja til að færðir verði fjármunir innan áætlunarinnar með það að leiðarljósi. Bæjarráð bendir á að líkur eru á að þannig náist betri nýting rannsóknarfjárins.“

Bæjarstjórn ítrekar að rannsóknum og undirbúningi ljúki á árinu 2016. Jafnframt verði lögð áhersla á að framkvæmdir við Seyðisfjarðargöng undir Fjarðarheiði hefjist á fyrsta tímabili samgönguáætlunar eða ekki síðar en 2017.
Bæjarstjórn Seyðisfjarðar ítrekar vilja til viðræðna um að veggjöld verði liður í fjármögnun Seyðisfjarðarganga, enda verði það til að flýta fyrir ákvörðun um framkvæmd þeirra. Bæjarstjórn skorar á alþingismenn að styðja þessar réttmætu kröfur Seyðfirðinga.“
Fundargerð og tillögur voru samþykktar með öllum greiddum atkvæðum.

Bókun bæjarráðs 03.júní 2015

Staða Fjarðarheiðarganga og fjárveitingar í nýjustu samgönguáætlun voru rædd á fundi bæjarráðs miðvikudaginn 3.júní síðastliðinn. Á fundinum áréttaði bæjarráð sérstaklega sjónarmið bæjarstjórnar Seyðisfjarðar varðandi Fjarðarheiðargöng með eftirfarandi ályktun:

„Í samgönguáætlun 2015-2018 er gert ráð fyrir 70 milljónum króna á ári til rannsókna við Seyðisfjarðargöng undir Fjarðarheiði. Bæjarráð Seyðisfjarðar leggur megináherslu á að rannsóknarborunum vegna ganganna verði lokið á árinu 2015 til að unnt verði að vinna áfram að úrvinnslu og hönnun á næstu tveimur árum. Bæjarráð skorar því á umhverfis- og samgöngunefnd að leggja til að færðir verði  fjármunir innan áætlunarinnar með það að leiðarljósi. Bæjarráð bendir á að líkur eru á að þannig náist betri nýting rannsóknarfjárins.“

Hér má sjá samgönguáætlun fyrir árin 2015-2018.

Fjarðarheiðargöng

Vegurinn um Fjarðarheiði er eini akvegurinn til og frá Seyðisfirði. Hann liggur í 620 metra hæð og getur erfið færð varað stóran hluta ársins. Samgöngur Seyðfirðinga eru því algjörlega orðnar sér á báti.

Seyðfirðingar hafa barist fyrir Fjarðarheiðargöngum í meira en 30 ár og því löngu orðið tímabært að hlustað sé á neyðaróp okkar. Seyðfirðingar hafa sýnt mikla biðlund og skilning á nauðsyn annarra jarðganga- og vegaframkvæmda í landinu og stutt heilshugar við þær. Nú er komið að Fjarðarheiðargöngum.