Category Archives: Fréttir

Bókun frá 1730.fundi bæjarstjórnar vegna Fjarðarheiðarganga

Í ljósi aðstæðna undanfarinna daga; innilokunar Seyðfirðinga og mikillar ófærðar almennt, lagði bæjarstjórn Seyðisfjarðarkaupstaðar eftirfarandi bókun fram á fundi sínum í gær, miðvikudaginn 24. janúar

„Undanfarna daga hefur óveður gengið yfir landið. Því hafa fylgt talsverðar truflanir á samgöngum og hafa Seyðfirðingar ekki farið varhluta af því sem venja er við slíkar aðstæður. 

Fjarðarheiðin hefur verið ófær eða lokuð í á þriðja sólarhring og bíður fjöldi ferðamanna og flutningabíla eftir að komast til og frá ferjunni Norröna, auk hefðbundinnar umferðar vegna atvinnu-, skóla- og þjónustusóknar. 

Viðvörun frá Veðurstofu Íslands þar sem snjóflóðahætta er metin mikil var gefin út á svæðinu enda hafa tvö snjóflóð fallið í Seyðisfirði, rétt fyrir utan byggð í gærkvöldi en um var að ræða meðalstór flóð. 

Frá því í nóvember hafa veðurofsi og verulegar truflanir á samgöngum ríkt bæði á Fagradal og Fjarðarheiði. Það sýnir að samgöngur til og frá Seyðisfirði yrðu eftir sem áður jafn ótryggar og óöruggar ef göng undir Fjarðarheiði yrðu látin víkja fyrir lakari kostum svo sem göngum undir  Mjóafjarðarheiði eða beint til suðurs yfir í Fannardal. 

Bæjarstjórn minnir því enn og aftur á mikilvægi þess, þó ekki sé nema af framangreindum ástæðum, að tekin verði ákvörðun um tímasetningu framkvæmda við Fjarðarheiðargöng. Samkvæmt núgildandi samgönguáætlun er gert ráð fyrir að Fjarðarheiðargöng verði næsta jarðgangaframkvæmd á eftir Dýrafjarðargöngum og því löngu tímabært að ákvarðanir liggi fyrir um upphaf framkvæmda.”

27073032_10212417941818513_8015185839833740087_n

Fundargerð bæjarstjórnarfundarins má finna á vef Seyðisfjarðarkaupstaðar

Úr Ársskýrslu Vegagerðarinnar 2016: Fjarðarheiðargöng

Á árinu 2016 vann Vegagerðin að framkvæmdum á Seyðisfjarðarvegi. Framkvæmdirnar voru bæði öryggisframkvæmdir og kannanir á jarðgangakostum undir Fjarðarheiði, milli Seyðisfjarðar og Fljótsdalshéraðs.

Hvað kannanir á jarðgangakostum varðar voru aðallega skoðaðar tvær jarðgangaleiðir sem opnast á mismunandi stöðum Héraðsmegin, það er við Miðhúsaá og Dalhús. Unnið var að hönnun vegar að mögulegum munnastað í Seyðisfirði og á báðum ofannefndum stöðum á Héraði. Tillaga um munna Seyðisfjarðarmegin er í um 130m hæð, gegnt Gufufossi.
Á Héraði er tillaga á báðum stöðum um munna í um 130-140m hæð og mælt er með gangnamunna við Dalhús.
Árið 2014 var einnig unnið að jarðfræðiathugunum og boruð 430m djúp rannsóknarhola nærri miðri Fjarðarheiði, sem gagnast báðum jarðgangaleiðum. Ekki tókst að bora holuna eins djúpt og áætlað var en það minnkar ekki gildi hennar mikið.
Á árinu 2015 vann Jarðfræðistofan ehf. áfram að jarðfræðiathugunum á yfirborði og undirbúning á rannsóknarborun 2016. Gerð voru drög að áhættugreiningu fyrir 13.5km jarðgöng af HOJ Consulting GmbH í Sviss. Skrifuð var yfirlitsskýrsla um mengun frá jarðgöngum með sérstöku tilliti til Fjarðarheiðarganga, sem verður að hluta grundvöllur mats á umhverfisáhrifum.
Á árinu 2016 var unnið að rannsóknarborunum þar sem boraðar voru 5 kjarnaholur, samtals um 1300m og 3 loftholur, samtals um 300m. Unnið var að áframhaldandi jarðfræðirannsóknum ásamt frumhönnun vega utan jarðganga og brúar á Eyvindará.

Kostnaður vegna kannana á jarðgangakostum árinu 2016 var 87 milljónir.

Rannsóknarborun, 13.júní 2016

Rannsóknarborun, 13.júní 2016

Ársskýrsla Vegagerðarinnar 2016

Fjarðarheiðargöng- einangrun Seyðisfjarðar rofin

fjarðarheiði

Grein þessi, eftir fyrrverandi og núverandi bæjarstjóra á Seyðisfirði frá 1974-2017, birtist í Morgunblaðinu þann 13.september 2017.

Enginn þéttbýlisstaður, með viðlíkan umferðarþunga að og frá um háan fjallveg Fjarðarheiði (600 m), hefur beðið jafn lengi eftir varanlegum öruggum heilsárs samgöngum. Vegna þessa hefur allri þróun og eflingu atvinnulífs sífellt verið ógnað. Fjárfestar sniðganga staðinn, hann einangrast og öryggisleysið sem fylgir leiðir til atgerfisflótta. Nú er mál að linni ef ekki á verr að fara.

Ef skoðuð er þróunin hjá „einangruðustu þéttbýlisstöðunum“ frá 1970 til dagsins í dag, þá er hún þessi:
Vestfirðir : Bolungarvík – Ísafjörður = gerð þrenn jarðgöng.
Norðurland : Siglufjörður = gerð tvenn jarðgöng. Ólafsfjörður = gerð tvenn jarðgöng.
Austurland : Neskaupstaður (Oddsskarð) = gerð tvenn jarðgöng. Seyðisfjörður (Fjarðarheiði) = engin varanleg lausn .

Færeyskar fólks-og bílferjur hafa siglt frá árinu 1975 til og frá Seyðisfirði eða í 42 ár. Norröna siglir allt árið frá 2003 og kemur vikulega til hafnar á Seyðisfirði. Árlegur farþegafjöldi fram og til baka nemur því að fylla rúmlega eina Boengflugþotu alla virka daga ársins. Vöruflutningar aukast stöðugt.

Höfnin er langstærsta skemmtiferðaskipahöfn Austurlands. Fjórða á landsvísu. 45 skip koma í ár. Það stefnir í 60 skipakomur árið 2018. Á einum sólahring hafa til dæmis komið 3 skip með um 5000 manns. Margir fara dagsferðir til Héraðs og til baka um Fjarðarheiði. Höfnin, með öfluga móttöku ferðafólks og sjávarafurða, er lífæð staðarins.

Egilsstaðaflugvöllur er varaflugvöllur fyrir millilandaflug, að og frá Íslandi, með vaxandi möguleikum í flutningum. Samstarfs- og samlegðaráhrif við Seyðisfjarðarhöfn, sem er önnur gátt inn og út úr landinu fyrir ferðafólk og vörur, er því augljós. Öruggar heilsárs samgöngur milli flugvallar og hafnar skiptir þar megin máli.

Talið er að um 80% umferðar yfir Fjarðarheiðina sæki til Héraðs, á flugvöll, áleiðis norður í Mývatnssveit, suður Öxi eða til Borgafjarðar eystri. En 20% umferðarinnar sækir yfir Fagradal  í Fjarðabyggð og áfram suður firði.

Ferðamálastofa áætlar að til Seyðisfjarðar komi 275.000 ferðamenn í ár og um 17% þeirra gisti á Seyðisfirði. Íbúar á Seyðisfirði eru 650.  

Með Fjarðarheiðargöngum verða ca. 18-20 km á flugvöll á Egilsstöðum. Fram og til baka 36-40km.

Fjarðaleiðin svonefnda, suður úr Seyðisfirði, leysir ekki Fjarðarheiðina. Hún  kallar á tvenn jarðgöng (alls 12.0 km) með 4 gangamunna. Til Mjóafjarðar (5.5 km) og áfram (6.5 km) í ný Norðfjarðargöng til Eskifjarðar og Reyðarfjarðar, yfir Fagradal til Egilsstaða alls um 70 km. Það gerir 140 km fram og til baka. Fyrir akandi umferð er það lenging, miðað við  Fjarðarheiðargöng, um 100 km. Þeirri leið hefur því alfarið verið hafnað sem næstu forgangsframkæmd í jarðgangagerð á Austurlandi.   

Lengd Fjarðarheiðarganga, 12-13 km, er engin fyrirstaða í gangagerð í dag. Lærdalsgöngin í Noregi sem eru helmingi lengri, 24 km, voru opnuð fyrir 17 árum. Nýlega er hafin framkvæmd á  Rogfastgöngum, 27 km löngum neðansjávargöngum í Noregi. Færeyingar eru byrjaðir á rúmlega 12 km löngum neðansjávargöngum og eru með í undirbúningi til Sandeyjar neðansjávargöng sem verða enn lengri.

Öllu tali um að Fjarðarheiðargöng, sem næstu göng, þjóni ekki hagsmunum alls Austurlands einungis Seyðfirðingum, er vísað til föðurhúsanna með vísan í framanritaðar staðreyndir. Ekki er talað um að Norðfjarðargöng þjóni bara hagsmunum Norðfirðinga enda fráleitt að setja slíkt fram. Öruggar heilsárs samgöngur eru nútíma mannréttindi.

Seyðfirðingar sækja í vaxandi mæli þjónustu til Fljótsdalshéraðs sem er miðstöð verslunar, þjónustu og samganga á Austurlandi. Samvinna og samgangur hefur og er því mikill milli sveitarfélaganna. Vaxandi áhugi á báðum stöðum er fyrir að skoða enn frekari samvinnu og sameiningu sveitarfélaganna. Meðal annars hefur verð rætt um að kalt neysluvatn og heitt vatn frá Hitaveita EF  tengist til Seyðisfjarðar í gegnum Fjarðarheiðargöng, en kaupstaðurinn fellur undir svonefnd  „köld svæði“.

Sveitarfélögin á Austurlandi hafa, með árlegum samþykktum sínum (SSA  árin 2014-2015-2016) um jarðgöng á Austurlandi, ályktað að Fjarðarheiðargöng verði forgangsverkefni að loknum Norðfjarðargöngum. Það er svo ítekað í nýrri, samhljóða, samþykkt stjórnar SSA frá 29. ágúst síðast liðnumÞingmenn Austurlands, allir sem einn, hafa stutt þá forgangsröðun.

Niðurstaðan að velja Fjarðarheiðargöng, sem nú þegar er í samgönguáætlun, byggir á ítarlegri umfjöllun Austfirðinga og fagaðila til fjölda ára og samanburða á lausnum á samgöngumálum á Austurlandi með heildarsýn á málaflokkinn í huga. Vilji Seyðfirðinga, bæjarstjórnar Seyðisfjarðar og sveitarfélaga á Austurlandi er að samgönguyfirvöld og Alþingi Íslendinga virði þessa niðurstöðu.                                                                                        

Við undirritaðir óskum öllum Austfirðingum til hamingju með opnun Norðfjarðarganga nú í haust. Norðlendingum með opnun Vaðlaheiðarganga þegar þar að kemur. Einnig Vestfirðingum, nú við upphaf Dýrafjarðarganga.

Í upphafi septembermánaðar 2017.

Fyrrverandi og núverandi bæjarstjórar Seyðisfjarðarkaupstaðar :

Jónas Hallgrimsson, bæjarstjóri 1974-1984.
Þorvaldur Jóhannsson, bæjarstjóri 1984-1998.
Ólafur Hr. Sigurðsson, bæjarstjóri 1998-2002 og 2006-2011.
Tryggvi Harðarson, bæjarstjóri 2002-2006.
Vilhjálmur Jónsson, núverandi bæjarstjóri frá 2011.

Fjarðarheiðargöng full eining meðal allra sveitarfélaga á Austurlandi.

Stjórn SSA áréttaði með ályktun á fundi sínum þann 29. ágúst 2017 að Fjarðarheiðargöng eru forgangsmál í samgöngubótum á Austurlandi. 

Að auki þakkar stjórnin samgöngu- og sveitarsjórnarráðherra og föruneyti fyrir góða og upplýsandi fundi í heimsókn til Austurlands á dögunum.

iceland_hiticeland_seydisfjordur_01

Stjórn SSA minnir á endurteknar, einróma samþykktar ályktanir aðalfunda SSA undanfarin 6 ár um að Fjarðarheiðargöng eru forgangsverkefni á Austurlandi og leggur áherslu á nauðsyn þess að sem fyrst verði ráðist í gerð jarðgangna undir Fjarðarheiði. 

Stjórnin áréttar jafnframt að undanfari þessarar niðurstöðu er ítarlegur samanburður á jarðgangnakostum og umfjöllun um þá af hálfu fagaðila, sveitarfélaga, þingmanna Norðausturkjördæmis og íbúa á Seyðisfirði af íbúafundum. Fjarðarheiðargöng eru nú þegar í Samgönguáætlun Alþingis og framkvæmdaáætlun Samgönguáætlunar. Í samræmi við hana hefur Vegagerðin unnið að undirbúningsrannsóknum sem miða að því að framkvæmdin geti hafist við lok gerðar Norðfjarðar- og Dýrafjarðarganga.

 

 

Forseti bæjarstjórnar Seyðisfjarðar efast ekki um hver niðurstaða verður af vinnu starfshóps, sem samgönguráðherra hyggst skipa, til að fara yfir mögulega kosti til að rjúfa vetrareinangrun Seyðfirðinga og um að ákveðið skref í þá átt sé að ræða.

Þetta kom fram í viðtali fréttamanns www.ruv.is við Arnbjörgu Sveinsdóttir, forseta bæjarstjórnar Seyðisfjarðar. Niðurstaða að velja Fjarðarheiðargöng, sem nú þegar er á samgönguáætlun, byggir á ítarlegri umfjöllun Austfirðinga og fagaðila til fjölda ára og samanburð á lausnum á samgöngumálum á Austurlandi með heildarsýn á málaflokkinn í huga.

Sjá nánar fréttir af fundi samgönguráðherra á Austurlandi:

http://www.austurfrett.is/frettir/radherra-vill-vanda-undirbuning-ad-gongum-til-seydisfjardar

http://www.ruv.is/frett/starfshopur-gaeti-hoggvid-a-hnut-i-gangamalum

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2017/08/23/yrdu_dyrustu_jardgong_a_islandi_2/

Áfram Fjarðarheiðargöng

fjardarheidagongÍ lok febrúar fengu bæjaryfirvöld staðfestar þær góðu fréttir frá vegamálastjóra að undirbúningur og skipulagsvinna vegna Fjarðarheiðarganga verði framhaldið á árinu (2017). Óvissu um verkefnið vegna óskilgreindra liða í fjárlögum hefur því verið eytt.

Í desember var verið að skoða og skrá borkjarnana sem hafði verið safnað í haust í tengslum við áætluð munnastæði. Þá verður unnin endanleg jarðfræðiskýrsla, sem stefnt er að verði tilbúin í maí. Næsta skref verður svo að hefja skipulagsvinnu með tengdum aðilum og velja endanlega legu ganganna undir Heiðinni og staðsetja munnastæði. Undirbúa þarf vegi að göngum, huga að brúargerð og hefja náttúrufarsrannsóknir vegna umhverfismats.

Í janúar hófst vinna við gerð landlíkana. Ef áætlun Vegagerðarinnar gengur eftir má vænta þess að í haust verði hægt að hefja forhönnun ganganna og um leið skoða öryggismálin. Gert er ráð fyrir þessi undirbúningsvinna teygi sig inn á næsta ár, en í framhaldi verði hægt að hefja lokahönnun mannvirkisns árið 2018

Ályktun bæjarstjórnar Seyðisfjarðar um Fjarðarheiðargöng

Bæjarstjórn samþykkti eftirfarandi ályktun um Fjarðarheiðargöng á fundi sínum 11. janúar síðastliðinn:

Bæjarstjórn Seyðisfjarðarkaupstaðar skorar á Alþingi og ríkisstjórn að nú þegar verði skilgreindir  nægir fjármunir til að ljúka rannsóknaráætlun vegna Seyðisfjarðarganga undir Fjarðarheiði (Fjarðarheiðargöng) sem þegar er langt á veg komin, í samræmi við samgönguáætlun 2015 til 2018.

Með hliðsjón af óvissu um framhald verkefnisins vegna óskilgreindra fjárheimilda í fjárlögum fyrir árið 2017, er brýnt að tryggt verði að vinna við þetta mikilvæga samgönguverkefni verði ekki rofin.
Þess ber að minnast að lögð er sérstök áhersla á áframhaldandi rannsóknir og framkvæmd verkefnisins í nefndaráliti meirihluta Umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis um tillögu til þingsályktunar um fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2015– 2018 frá 14. september 2016. Þar segir í kafla um jarðgöng: „Nú er unnið að framkvæmdum við gerð Norðfjarðarganga. Framkvæmdir hófust árið 2013 og áætlað er að þeim ljúki 2017. Er þá lagt til að framkvæmdir verði hafnar við Dýrafjarðargöng milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar á Vestfjörðum. Meirihluti nefndarinnar áréttar að svo að hægt verði að hefja framkvæmdir við Dýrafjarðargöng þurfi heimild í fjárlögum og samþykkta samgönguáætlun. Þá er á árunum 2015–2018 gert ráð fyrir að unnið verði að jarðfræðirannsóknum í væntanlegu gangastæði Seyðisfjarðarganga en meirihlutinn telur að svigrúm sé nú til staðar til að hefja gerð Seyðisfjarðarganga samhliða gerð Dýrafjarðarganga.“

Ennfremur vill bæjarstjórn benda á þann mikla stuðning er Fjarðarheiðargöng hafa hlotið frá öllum landshlutum á samráðsfundum við gerð Samgöngu- og fjarskiptaáætlunar. Á meðfylgjandi mynd sem fengin er af vef Innanríkisráðuneytisins sést að göng milli Seyðisfjarðar og Héraðs hafa notið einna mest fylgis með næstflestar ábendingar.

 Sey-fj.göng110117

 

Tillagan samþykkt með 7 greiddum atkvæðum.

 

Ferðamönnum bjargað af Fjarðarheiði

Fjarðarheiði minnti óneitanlega á sig í gær, 17.nóvember, er björgunarsveitin Ísólfur bjargaði 10 ferðamönnum sem sátu fastir á heiðinni vegna veðurs.

Björgunarsveitarmenn áttu erindi til Egilsstaða og komu að tveimur bílum sem voru í vanda í nær engu skyggni Egilsstaðamegin í heiðinni. Fimm erlendir ferðamenn voru í hvorum bíl. „Það er glórulaust veður og ekkert skyggni og væntanlega búið að loka heiðinni,“ segir Guðni Sigmundsson, meðlimur í björgunarsveitinni Ísólfi.
 

Vegagerðin er hætt mokstri á Fjarðarheiði segir veginn ófæran. Þá er einnig ófært á Öxi og á þjóðvegi 1 um Breiðdalsheiði en Fjarðaleið er fær. Þjóðvegi 1 frá Kirkjubæjarklaustri og austur undir Vatnajökul hefur verið lokað en þar eru  25 metrar á sekúndu og yfir 35 metrar á sekúndu í hviðum. 

fj

Samgönguáætlun til fjögurra ára samþykkt á Alþingi

Samgönguáætlun til fjögurra ára var samþykkt á Alþingi af öllum viðstöddum þingmönnum. Áætlunin gerir ráð fyrir að rúmum 100 milljörðum króna verði varið til framkvæmda í samgöngumálum á árunum 2015 til 2018.

Samkvæmt samgönguáætluninni er umtalsverðu fé ráðstafað í jarðgangagerð. Stefnt er að því að ljúka framkvæmdum við Norðfjarðargöng á næsta ári og hefja framkvæmdir við Dýrafjarðargöng sama ár. Undirbúningsvinnu Fjarðarheiðarganga lýkur árið 2018 og áfram verður unnið að jarðgöngum við Bakka, en í heildina er rúmum tíu milljörðum ráðstafað í jarðgangaframkvæmdir.

Til Fjarðarheiðarganga fara alls 140 milljónir.

Mynd fengin af visi.is

Mynd fengin af visi.is

 

Nefndarálit umhverfis- og samgöngunefndar

Í nefndaráliti um tillögu til þingsályktunar um fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2015-2018 frá meirihluta umhverfis- og samgöngunefndar kemur fram að svigrúm sé til staðar til þess að hefja gerð Seyðisfjarðarganga samhliða gerð Dýrafjarðarganga. Áætlað er að framkvæmdir hefjist við Dýarfjarðargöng að loknum Norðfjarðargöngum.

Í nefndarálitinu stendur:
“Jarðgöng.
Nú er unnið að framkvæmdum við gerð Norðfjarðarganga. Framkvæmdir hófust árið 2013 og áætlað er að þeim ljúki 2017. Er þá lagt til að framkvæmdir verði hafnar við Dýrafjarðar­göng milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar á Vestfjörðum. Meiri hlutinn áréttar að svo að hægt verði að hefja framkvæmdir við Dýrafjarðargöng þurfi heimild í fjárlögum og samþykkta samgönguáætlun. Þá er á árunum 2015–2018 gert ráð fyrir að unnið verði að jarðfræði­rannsóknum í væntanlegu gangastæði Seyðisfjarðarganga en meiri hlutinn telur að svigrúm sé nú til staðar til að hefja gerð Seyðisfjarðarganga samhliða gerð Dýrafjarðarganga.”

Í nefndarálitinu kemur einnig fram að jarðgöng gegni miklu mikilvægi fyrir tengingu byggðalaga og stækkun atvinnusvæða og sé í raun einnig mikilvægt kynjajafnréttismál. Í því ljósi var stuðst við rannsókn sem unnin var við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri, þar sem rannsökuð var staða kynjanna. En rannsóknin bendir til þess að jarðgöng hafi jákvæð áhrif á atvinnutækifæri og atvinnusókn kvenna, þeim standi til boða fjölbreyttari störf. “Þessar vísbendingar um breytt ferðamynstur kvenna eru afar jákvæðar og gefa til kynna að gerð jarðganga á landsbyggðinni þar sem þéttbýliskjarnar eru tengdir betur saman til að skapa stærra atvinnusvæði hafi jákvæð áhrif á jafnrétti kynjanna.”