Nú er að ljúka rannsóknarborunum vegna jarðganga undir Fjarðarheiði milli Egilsstaða og Seyðisfjarðar. Göngin yrðu um þrettán og hálfur kílómetri að lengd og því langlengstu veggöng hér á landi.
Komi ekkert óvænt upp á segir Gísli Eiríksson, yfirmaður jarðganga hjá Vegagerðinni, að reiknað sé með að nú sé borunum vegna þessara ganga lokið. „Og síðan er að taka þetta allt saman og skrifa jarðfræðiskýrslu um leið Fjarðarheiðarganga,“ segir hann.
Tveir gangamunnar koma til greina Hérðasmegin
Gísli segir að lega ganganna ráðist mikið af því hvernig bergið í fjallinu er, en lega vegarins að gangamunnum sé þó mikilvægur þáttur. Ákveðið er að munninn í Seyðisfirði verði við núverandi veg á móts við Gufufoss, en Héraðsmegin koma tveir staðir til greina. Annarsvegar rétt sunnan við uppgönguna að Fardagafossi og hinsvegar við eyðibýlið Dalhús á Eyvindarárdal. Gísli segir lengd ganganna nánast þá sömu að báðum stöðum og vegalengdin frá þessum stöðum inn í miðbæ Egilsstaða sé nákvæmlega sú sama. „En það er eitt sem er dálítið öðruvísi. Vegalengdin frá Seyðisfirði niður á firði, til að mynda til Reyðarfjarðar, er sex kílómetrum styttri miðað við munnann við Dalhús,“ segir Gísli.
Helmingi lengri en flest íslensk veggöng
Þrettán kílómetra löng göng undir Fjarðarheiði yrðu um helmingi lengri en flest þau veggöng sem fyrir eru. Því segir Gísli að erlendur sérfræðingur hafi unnið sérstaka áhættugreiningu miðað við svo löng göng. „Og niðurstaðan varð að þetta myndi alveg ganga hjá okkur en við þurfum kannski að hafa meiri búnað eða eitthvað svoleiðis.“