Öðrum áfanga jarðfræðirannsókna vegna Fjarðaheiðaganga að ljúka

Nú er að ljúka rannsóknarborunum vegna jarðganga undir Fjarðarheiði milli Egilsstaða og Seyðisfjarðar. Göngin yrðu um þrettán og hálfur kílómetri að lengd og því langlengstu veggöng hér á landi.

Komi ekkert óvænt upp á segir Gísli Eiríksson, yfirmaður jarðganga hjá Vegagerðinni, að reiknað sé með að nú sé borunum vegna þessara ganga lokið. „Og síðan er að taka þetta allt saman og skrifa jarðfræðiskýrslu um leið Fjarðarheiðarganga,“ segir hann.

Tveir gangamunnar koma til greina Hérðasmegin

Gísli segir að lega ganganna ráðist mikið af því hvernig bergið í fjallinu er, en lega vegarins að gangamunnum sé þó mikilvægur þáttur. Ákveðið er að munninn í Seyðisfirði verði við núverandi veg á móts við Gufufoss, en Héraðsmegin koma tveir staðir til greina. Annarsvegar rétt sunnan við uppgönguna að Fardagafossi og hinsvegar við eyðibýlið Dalhús á Eyvindarárdal. Gísli segir lengd ganganna nánast þá sömu að báðum stöðum og vegalengdin frá þessum stöðum inn í miðbæ Egilsstaða sé nákvæmlega sú sama. „En það er eitt sem er dálítið öðruvísi. Vegalengdin frá Seyðisfirði niður á firði, til að mynda til Reyðarfjarðar, er sex kílómetrum styttri miðað við munnann við Dalhús,“ segir Gísli.

gufufoss

Gufufoss

Helmingi lengri en flest íslensk veggöng

Þrettán kílómetra löng göng undir Fjarðarheiði yrðu um helmingi lengri en flest þau veggöng sem fyrir eru. Því segir Gísli að erlendur sérfræðingur hafi unnið sérstaka áhættugreiningu miðað við svo löng göng. „Og niðurstaðan varð að þetta myndi alveg ganga hjá okkur en við þurfum kannski að hafa meiri búnað eða eitthvað svoleiðis.“

Tekið af vef ruv.is

 

Vel hefur gengið við rannsóknarboranir

Vel hefur gengið við könnun jarðlaga, en tveir sænskir bormenn hafa síðustu vikur verið við störf utan í Fjarðarheiði í þeim tilgangi að safna jarðsýnum af hugsanlegum stæðum fyrir gangamunna Fjarðarheiðarganga.

Það er fyrirtækið Alvarr ehf sem annast þessar boranir, í samstarfi við sænska félagið Drillcon AB. Verkið var boðið út af Vegagerðinni fyrr á árinu.

Bormenn hafa nú verið að störfum Seyðisfjarðarmegin, skammt frá skíðasvæðinu í Stafdal, þar sem bora á 170 metra djúpa holu. Fyrsta holan er nokkru neðar og er hún um 350 metra djúp. Einnig hefur hola verið boruð Egilsstaðamegin, sem er um 300 metrar á dýpt.

Vonast er til að rannsóknarborunum ljúki um miðjan september, en þá verður unnið úr niðurstöðum og sýnum.

Austurfrétt fjallaði um málið, hér.

 

Fjarðarheiðargöng: Rannsóknarboranir 2016

Nú eru hafnar rannsóknarboranir vegna Fjarðarheiðargangna.

Verkið felst í borun á tveimur borholum á Héraði, nærri Egilsstöðum og þriggja hola í Seyðisfirði, nærri núverandi vegi í 165 – 470 m hæð yfir sjó. Verkið felst í að bora lóðréttar kjarnaholur, með kjarnatöku og tilheyrandi rannsóknum, auk loftborunar á hitastigulsholum á þremur stöðum.

Gert er ráð fyrir að lokið verði við boranir og frágang eigi síðar en 15.október 2016.

Fjarðarheiðargöng: Rannsóknarboranir

Fjarðarheiðargöng: Rannsóknarboranir

Sumarvertíðin hafin: skemmtiferðaskipsfarþegar strand

Mokstur yfir Fjarðarheiði til Seyðisfjarðar gekk brösuglega í dag því að blásari bilaði og þurfti að loka heiðinni tímabundið, á meðan gert var við hann. Seyðfirðingar máttu ekki við vandræðum á Fjarðarheiði því að í morgun lagðist fyrsta skemmtiferðaskip sumarsins að bryggju; skemmtiferðaskipið Magellan, með alls 925 farþega. RÚV greindi frá þessu í hádegisfréttum sínum í dag.

Skoðunarferðum með Tanna travel var aflýst, en 134 farþegar ætluðu yfir Fjarðarheiði og í skoðunarferð kringum Lagarfljót með viðkomu í Skriðuklaustri og Snæfellsstofu Vatnjökulsþjóðgarðs. Búist er við að veður geti versnað aftur á Fjarðarheiði þegar líður á daginn og til stendur að skipið haldi til Akureyrar klukkan fimm.

Ófært á áttunda degi sumar: Myndskeið frá RÚV

Fjarðarheiðargöng: Bættar samgöngur og aðgengi að heitu vatni

Í frétt RÚV 25.apríl var rætt við forstjóra RARIK um mögulega lokun á fjarvarmaveitu á Seyðisfirði. RARIK er í talsverðum vandræðum með fjarvarmaveituna á Seyðisfirði og forstjóri RARIK, Tryggvi Þór Haraldsson, segir að fyrirtækið sjái í raun ekki mikla framtíð slíkum veitum.

Í vor mun RARIK hefja könnunarboranir eftir heitu vatni á Fjarðarheiði í samstarfi við Vegagerðina, sem undirbýr möguleg Fjarðarheiðargöng.

Litlar vonir eru taldar á því að heitt vatn finnist eða að varmadælur dugi til að halda kerfinu gangandi fyrir Seyðfirðinga. „Nú þriðji kosturinn er síðan að ef það verða göng upp á Hérað; að menn tengist bara Hitaveitu Egilsstaða og Fella. Ef að það lægi fyrir og ákvörðun um slíkt,“ segir Tryggvi þór.

Hinum megin við Fjarðarheiði eru Héraðsbúar með bæði heitt og kalt vatn handa Seyðfirðingum og gætu göng haft mikil áhrif á líf Seyðfirðinga, ekki bara með bættum samgöngum heldur einnig aðgengi að heitu og köldu vatni.

Bókun bæjarráðs 17.febrúar 2016

Miðvikudaginn 17.02.16 kom bæjarráð Seyðisfjarðar saman til fundar á skrifstofu bæjarins að Hafnargötu 44. Þar var eftirfarandi bókað:

2. Samstarf sveitarfélaga:
Fundargerð 3. fundar samgöngunefndar SSA starfsárið 2015-2016 frá 11.02.16. Lögð fram til kynningar. Gestir fundarins undir öðrum lið voru Hreinn Haraldsson vegamálastjóri, Sveinn Sveinsson svæðisstjóri og Sigurbergur Björnsson skrifstofustjóri í innanríkisráðuneytinu. Í máli vegamálastjóra kom m.a. fram að í ár eru fjárheimildir til framkvæmda við öryggisaðgerðir á Seyðisfjarðarvegi sem farið verður í fyrir 100 milljónir króna og í rannsóknir til undirbúnings Fjarðarheiðarganga sem nemur 150 milljónum króna.

7.Fjarðarheiðargöng – Fundur vegna undirbúnings Fjarðarheiðarganga 16.02.16. Til fundarins mættu Sveinn Sveinsson svæðisstjóri Vegagerðarinnar á Austurlandi og Gísli Eiríksson forstöðumaður jarðgangadeildar Vegagerðarinnar til að kynna bæjarstjórn Seyðisfjarðar undirbúning áframhaldandi rannsókna á Fjarðarheiði vegna Fjarðarheiðarganga. Á fundinum var fjallað um nauðsynlegar breytingar á aðalskipulögum sveitarfélaganna sem liggja að framkvæmdinni. Þá kom fram að fyrirhugað er að bjóða út rannsóknir við möguleg munnastæði í mars nk.  og áætlað er að rannsóknum verði lokið í ár, 2016.

Fundargerðina í heild má finna hér

Fundi frestað vegna ófærðar á Fjarðarheiði

Enn minnir Fjarðarheiðin á sig með ófærð.
Opnum stjórnmálafundi Framsóknarmanna sem halda átti á Seyðisfirði var frestað vegna ófærðar á Fjarðarheiði.  Þingmenn Framsóknarflokksins, þau Líneik Anna Sævarsdóttir, Þórunn Egilsdóttir og Höskuldur Þórhallsson, sem er formaður umvherfis- og samgöngunefndar komust því ekki til Seyðisfjarðar, enda var heiðin ekki verið opnuð (10.febrúar 2016).

Að sama skapi var opnum stjórnmálafundi Sjálfstæðismanna, þar sem þau Kristján Þór Júlíusson og Valgerður Gunnarsdóttir höfðu boðað komu sína, aflýst vegna ófærðar á Fjarðarheiði (11.febrúar 2016).

Að sama skapi má nefna að farþegar Norrænu komust hvorki lönd né strönd, en biðu í góðu yfirlæti á Seyðisfirði, þangað til heiðin opnaðist á ný.ófært

 

Ófærð vatn á myllu Seyðfirðinga í baráttunni um göng undir Fjarðarheiði

Sjónvarpsþættirnir Ófærð hjálpa til í baráttunni um gerð Fjarðarheiðarganga.
Vilhjálmur Jónsson, bæjarstjóri Seyðisfjarðar, segir í viðtali við fréttamann Eyjunnar, það alveg öruggt að þáttaröðin Ófærð sem sýnd er í Ríkissjónvarpinu um þessar mundir sé vatn á myllu Seyðfirðinga í baráttunni um göng undir Fjarðarheiði. Þættirnir gerast á Seyðisfirði og eru teknir upp þar að hluta.

Heiðin er erfið yfirferðar í vetrarveðrum en ófært getur verið yfir hana nokkra daga í senn. Þetta veldur heimamönnum vitanlega ýsmum vandræðum, enda þurfa margir Seyðfirðingar að sækja atvinnu og ýmsa þjónustu yfir heiðina. Fjarðarheiði er eini akvegurinn til og frá Seyðisfirði og liggur heiðin hátt, í um 620 metra hæð yfir sjávarmáli á löngum kafla.

Vert er að geta þess að við frumsýningu á þáttunum var ófært yfir Fjarðarheiði, svo aðstæður þáttarins og umhverfi var ansi raunverulegt þegar Seyðfirðingar sátu yfir sjónvarpsskjám sínum og horfðu á fyrsta þátt Ófærðar.

 

Fjallvegir lokaðir, Fjarðarheiði ófær og akstur bannaður

Ófærð

Tekið af vef Vegagerðarinnar – www.vegagerd.is

Flestir fjallvegir á Austurlandi eru lokaðir í dag og hefur Fjarðarheiði verið merkt ófær og allur akstur bannaður síðan snemma í morgun (2.desember 2015).

Samkvæmt fréttum frá RÚV bíða nokkrir flutningabílar á Egilsstöðum, en þeir eiga að flytja útflutningsfisk sem á að fara með Norrænu frá Seyðisfirði í kvöld. Þeir bíða enn eftir því að komast yfir Fjarðarheiði, en lægja á í veðri undir kvöld. Ekkert skyggni hefur verið á vegum og því ekki hægt að ryðja, samkvæmt starfsmönnum Vegagerðarinnar.

 

 

Þingmenn standa með vilja Seyðfirðinga

Á aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Austurlandi, sem haldin var 3.október s.l., var rætt um forgangsröðun jarðganga í fjórðungnum. Á fundinum báðu þingmenn Norðausturkjördæmis bæjarfulltrúa í Fjarðabyggð að rugga ekki bátnum og spilla ekki samstöðu um Fjarðarheiðargöng milli Seyðisfjarðar og Egilsstaða.

Eins og fram kemur í frétt RÚV um málið sagði Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna og fyrrverandi samgönguráðherra, að þingmenn kjördæmisins væru allir sammála um hvar grafa eigi næstu göng á Austurlandi og sagði m.a.: „óskir Seyðfirðinga eru skýrar; það er að fara undir Fjarðarheiði. Afstaða þingmannahópsins er eindregin og skýr. Við styðjum Seyðfirðinga í þeirri ósk og Vegagerðin vinnur að sjálfsögðu að rannsóknum í samræmi við þetta“.

Í endanlegri ályktun frá SSA eru göng undir Fjarðarheiði sett í forgang en rannsóknir á hinum kostinum einnig nefndar á nafn:
“Aðalfundur SSA, haldinn á Djúpavogi dagana 2. og 3. október 2015, leggur þunga áherslu á þá sameiginlegu framtíðarsýn að byggðir á Mið-Austurlandi, Fjarðabyggð, Seyðisfjörður og Fljótsdalshérað, verði tengdar saman með samgöngum til þess að rjúfa vetrareinangrun og efla framtíðarmöguleika svæðisins sem eins atvinnu-og þjónustusvæðis. Fundurinn telur brýnt að tryggja strax á fjárlögum næsta árs fjármagn til að ljúka nauðsynlegum rannsóknum vegna jarðganga undir Fjarðarheiði á milli Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðar, sem er forgangsverkefni í jarðgangnagerð á Austurlandi, enda aðstæður íbúa á Seyðisfirði slíkar á vetrum að ekki verður við það unað lengur. Þá þarf að ráðast í rannsóknir á öðrum gangakostum, á milli Norðfjarðar og Seyðisfjarðar um Mjóafjörð. Lögð er áhersla á að við gerð og uppsetningu samgönguáætlunar og gerð fjárlaga verði jarðgangagerð og rannsóknir vegna þeirra fjármögnuð með sérstökum hætti þannig að aðrar mikilvægar framkvæmdir í samgöngumálum landshlutans dragist ekki sökum fjárskorts”

Í Hádegisfréttum RÚV 6.október 2015 má hlusta á frétt um málið, en fréttin hefst á 17:55 mínútu.

Samanburður hugsanlegra samgöngumynstra. Firðir tengdir saman með jarðgöngum auk tengingar upp á Hérað, annars vegar með göngum undir Mjóafjarðarheiði en hins vegar með göngum undir Fjarðarheiði. Myndin er fengin úr skýrslunni “Fjarðarheiðargöng – Athugun á hugsanlegum munnasvæðum og fleiri þáttum” (2011). Skýrslan var unnin af Eflu verkfræðistofu fyrir Vegagerðina.

Samanburður hugsanlegra samgöngumynstra. Firðir tengdir saman með jarðgöngum auk tengingar
upp á Hérað, annars vegar með göngum undir Mjóafjarðarheiði en hins vegar með göngum undir
Fjarðarheiði.
Myndin er fengin úr skýrslunni “Fjarðarheiðargöng – Athugun á hugsanlegum munnasvæðum og fleiri þáttum” (2011). Skýrslan var unnin af Eflu verkfræðistofu fyrir Vegagerðina.