Fjarðarheiðargöng

Vegurinn um Fjarðarheiði er eini akvegurinn til og frá Seyðisfirði. Hann liggur í 620 metra hæð og getur erfið færð varað stóran hluta ársins. 

Snjógöng á Fjarðarheiði á 6. áratugnum. Myndin er úr myndasafni Guðjóns Sæmundssonar og er hann líklega ljósmyndarinn. Við enda gangnanna eru kona hans Kristín Jóhannesdóttir og dóttirin Erla. Myndin er fengin frá Héraðsskjalasafni Austfirðinga.

Snjógöng á Fjarðarheiði á 6. áratugnum. Myndin er úr myndasafni Guðjóns Sæmundssonar og er hann líklega ljósmyndarinn. Við enda gangnanna eru kona hans Kristín Jóhannesdóttir og dóttirin Erla.
Myndin er fengin frá Héraðsskjalasafni Austfirðinga.

Í skýrslu EFLU sem unnin var fyrir Vegagerðina og kom út í janúar 2011 kemur fram að:

 sáralítill munur [er] í vegalengd milli Neskaupstaðar og Egilsstaða eftir því hvort tenging upp á Hérað er með göngum undir Mjóafjarðarheiði eða Fjarðarheiði, munar um 1 km þar á milli og er styttra að fara undir Fjarðarheiðina. Sama á við um þéttbýlin Eskifjörð og Reyðarfjörð, það munar 1-2 km í vegalengd til Egilsstaða eftir því hvort farið er undir Fjarðarheiði eða Mjóafjarðarheiði.
1-2 km munur í vegalengd er ekki mikill og m.t.t. vegalengdar ætti það ekki að skipta íbúa þessara byggðarlaga miklu máli hvort hugsanleg tenging upp á Hérað færi undir Mjóafjarðarheiði eða Fjarðarheiði. Vegalengd frá Seyðisfirði til Egilsstaða um Fjarðarheiðargöng er áætluð um 21-27,5 km miðað við göng milli mismunandi munnasvæða (sbr. tafla 6), en 22 km miðað við munnasvæði sem hér eru valin til samanburðar. Vegalengd milli Seyðisfjarðar og Egilsstaða með göngum undir Mjóafjarðarheiði er um 36 km og er því um 14 km lengri en leiðin undir Fjarðarheiði. Það gefur því auga leið að það munar miklu fyrir Seyðfirðinga að tenging fyrir byggðarlög við sjávarsíðuna upp á Hérað sé undir Fjarðarheiði. Með tengingu byggðarlaganna við Hérað með göngum undir Fjarðarheiði fæst mun betri hringtenging milli allra byggðarlaganna heldur en með tengingu undir Mjóafjarðarheiði. Með Mjóafjarðartengingu yrði Seyðisfjörður gerður að endastöð. Í þessum samanburði eru sömu göng notuð til að tengja saman Seyðisfjörð og Mjóafjörð og Mjóafjörð og Fannardal (Norðfjörð). Munur í lengd jarðganga milli samgöngumynstranna liggur því fyrst og fremst í lengd ganga undir Fjarðarheiði og Mjóafjaðarheiði. Líkleg lengd ganga undir Fjarðarheiði er um 12,5 km á móti 9,2 km undir Mjóafjarðarheiði. Það munar því rúmum 3 km í lengd jarðganga milli samgöngumynstra. Göng undir Fjarðarheiði stytta hins vegar vegalengdina frá Seyðisfirði upp á Hérað umtalsvert samanborið við göng undir Mjóafjarðarheiði.


Helstu rök Seyðfirðinga fyrir Fjarðarheiðargöngum eru meðal annars:

• Mikil atvinnu- og skólasókn er yfir Fjarðarheiði í báðar áttir þar sem hluti bæjarbúa sækir vinnu og stundar nám daglega í nágrannabyggðarlögum.
• Ófærð og vandræði á Fjarðarheiðinni standa gjarnan yfir í nokkra daga í senn, dæmi eru um allt að sjö daga samfellt tímabil þar sem erfitt og ómögulegt hefur verið að komast yfir.
• Útköll björgunarsveitanna á Seyðisfirði og Egilsstöðum hafa aukist mjög mikið síðastliðin ár vegna erfiðrar vetrarfærðar á Fjarðarheiði.
• Vetrarþjónusta á heiðinni hefur verið skert þannig að opnunartími er styttri.
• Stór hluti íbúabyggðar á Seyðisfirði er á skilgreindum ofanflóðahættusvæðum. Ef hættuástand skapaðist og/eða snjóflóð féllu eru Seyðfirðingar mjög háðir því að samgöngur um þennan eina akveg séu greiðfærar.
• Margir veigra sér við því að fara yfir heiðina nema hún sé alveg greiðfær og fólk þorir ekki á heiðina vegna hálku, skafrennings og blindu. Þessar aðstæður valda því mikilli einangrun fyrir fjölda fólks.
• Seyðisfjörður er landamærabær og eina vegtenging bílaumferðar til og frá Evrópu liggur þar um.
• Heilsárssiglingar Norrönu hafa mikil áhrif á ferðaþjónusta um allt land samkvæmt rannsókn á þróun ferðaþjónustu á Íslandi. Því er mikilvægt að enn frekar sé hægt að fjölga ferðamönnum sem ekki verður gert nema með öruggum samgöngum um Fjarðarheiði.
• Þeir sem sem nýta fragtþjónustu ferjunnar verða að geta treyst á að koma farmi sínum í skip. Alltof oft hefur það gerst að farmur hefur ekki komist á tilsettum tíma vegna ófærðar. Þetta ógnar heilsárssiglingum verulega.
• Á Egilsstöðum er flugvöllurinn og samspil flugvallar og ferjuhafnar er mjög mikilvægt.
• Öruggar samgöngur frá Seyðisfirði eru nauðsynlegar til að komast í sjúkraflug og á Fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupstað þar sem fæðingardeildin er m.a. staðsett.
• Öruggar samgöngur við flugvöllinn á Egilsstöðum er gríðarlega mikilvægar þegar kemur að öryggi og allri sérfræðiþjónustu lækna við íbúana. Aðgengi að flugvelli er einnig mikilvægt fyrir tengingu við höfuðborgarsvæðið þar sem stærstur hluti opinberrar stjórnsýslu er staðsettur.
• Heilbrigði og öryggi Seyðfirðinga er ógnað vegna tíðrar ófærðar yfir heiðina.
• Löggæsla hefur verið verulega skert á Seyðisfirði og lögreglustöðin hefur m.a. verið lögð niður.
• Íbúar Seyðisfjarðar sækja verslun og opinbera þjónustu í auknum mæli til Egilsstaða.
• Samvinna og samstarf sveitarfélaga hefur aukist verulega, m.a. samstarf um félagsþjónustu, skólaþjónustu og málefni fatlaðra.
• Brunavarnir eru í samstarfi milli Héraðs og Seyðisfjarðar, sem er stórt öryggismál.
• Byggðaþróun hefur ekki verið nógu hagstæð. Óviðunandi samgöngur er stór þáttur í þeirri þróun. Með jarðgöngum stækkar atvinnusvæði Seyðisfjarðar og nágrannabyggðarlaga.
• Forsenda sameiningar sveitafélaga eru bættar samgöngur.

Seyðfirðingar hafa barist fyrir Fjarðarheiðargöngum í meira en 30 ár og því löngu orðið tímabært að hlustað sé á neyðaróp okkar. Seyðfirðingar hafa sýnt mikla biðlund og skilning á nauðsyn annarra jarðganga- og vegaframkvæmda í landinu og stutt heilshugar við þær.
Nú er komið að Fjarðarheiðargöngum!