Fréttatilkynning frá bæjarstjórn Seyðisfjarðar 5. ágúst 2010

Seyðfirðingar minna á nauðsyn Fjarðarheiðarganga í ljósi umræðunnar um öryggismál vegamannvirkja: Brýnt að leysa hættulegan veg yfir Fjarðarheiði af hólmi með jarðgöngum.

Í ljósi fjölmiðlaumræðu síðustu daga um öryggi í Hvalfjarðargöngum minnir bæjarstjórn Seyðisfjarðar á að í nýlegri úttekt Euro RAP á íslenska vegakerfinu fær vegurinn yfir Fjarðarheiði slæma útkomu. Væru vegamót á leiðinni milli Seyðisfjarðar og Héraðs fleiri en raun ber vitni fengi vegurinn aðeins tvær stjörnur af fimm fyrir öryggi en í skýrslunni er bent á að vegurinn yfir Fjarðarheiði er mjög hár, brattir fláar á honum nánast alla leið og er leiðin eftir því hættuleg vegfarendum. Á sérstöku slysakorti Euro RAP (Risk Rate Map), sem byggt er á slysasögu með tilliti til lengdar vegar og umferðarmagns fær Fjarðarheiði aðeins eina stjörnu. Leiðin er með öðrum orðum skilgreind sem einn hættulegasti vegur landsins.

Þrýst á stjórnvöld
Seyðfirðingar hafa lengi bent á nauðsyn þess að ráðast í göng undir Fjarðarheiði og fyrir því eru bæði öryggissjónarmið og mörg önnur rök hvað varðar atvinnulíf, skólasókn og mannlíf almennt. Bæjarstjórn Seyðisfjarðar ítrekaði í síðasta mánuði þá kröfu Seyðfirðinga að Fjarðarheiðargöng verði sett inn á samgönguáætlun stjórnvalda við endurskoðun hennar í haust. Bæjarráð Fljótsdalshéraðs lýsti fullum stuðningi við þetta baráttuefni Seyðfirðinga á fundi sínum í síðustu viku.

Áratuga baráttumál
Bæjarstjórn Seyðisfjarðar minnir á að Fjarðarheiðargöng eru eini akvegurinn til og frá Seyðisfirði, vegur sem fer í rúmlega 620 metra hæð. Truflanir á vetrarsamgöngum eru tíðar, með tilheyrandi óöryggi og óþægindum fyrir íbúa Seyðisfjarðar og aðra þá sem veginn nota. Barátta fyrir göngum undir Fjarðarheiði hefur staðið í um 30 ár og er að mati Seyðfirðinga ekki ásættanlegt annað en Fjarðarheiðargöng verði sett á áætlun stjórnvalda nú í haust þannig að ekki sé vafi um að í gerð þeirra verði ráðist.

Stuðningur við Fjarðarheiðargöng

Á fundi bæjarráðs Fljótsdalshéraðs 28. júlí, var lögð fram til kynningar og umræðu bókun bæjarstjórnar Seyðisfjarðar frá 14. júlí sl. varðandi gerð jarðgangna milli Seyðisfjarðar og Héraðs. En þar ítrekaði bæjarstjórn Seyðisfjarðar fyrri ályktanir sínar um rannsóknir og undirbúningsvinnu vegna gerðar Fjarðarheiðarganga og skorar á samgönguyfirvöld að setja jarðgöngin inn á næstu samgönguáætlun. Í greinargerð með áskoruninni er að finna mörg rök fyrir því að hraða þessari framkvæmd, bæði hvað varðar öryggismál, atvinnumál, flutninga, ferðaþjónustu, verslun og þjónustu. Fljótsdalshérað hefur ávallt stutt þessar hugmyndir, hvort sem rætt er um Fjarðarheiðargöng sem eina framkvæmd eða hluta af Samgöngum.

Á fundi bæjarráðs Fljótsdalshéraðs var lýst fullum stuðningi við bæjarstjórn Seyðisfjarðar í baráttu þeirra fyrir jarðgöngum sem tengja Seyðisfjörð við Hérað. Í bókun bæjarráðsins kemur fram að Fljótsdalshérað hafi af heilum hug stutt við baráttu nágrannasveitarfélaga fyrir samgöngubótum innan fjórðungsins og mun gera það áfram.

Ályktun frá bæjarstjórn Seyðisfjarðar

Þann 14. júlí 2010 sendi bæjarstjórn Seyðisfjarðar frá sér eftirfarandi ályktun um Fjarðarheiðargöng:

Bæjarstjórn Seyðisfjarðar skorar á samgönguyfirvöld að jarðgöng milli Seyðisfjarðar og Héraðs verði í endurskoðaðri samgönguáætlun sem lögð verður fram á haustdögum. Bæjarstjórnin ítrekar þar með fyrri ályktun sína frá 17. september 2008 og margar ályktanir þar á undan um samgöngubætur milli Seyðisfjarðar og Héraðs. Ekki verður lengur unað við þær hættulegu og óásættanlegu aðstæður sem eru í samgöngumálum Seyðisfjarðar.
Strax verður að tryggja rannsóknarfé til að ljúka undirbúningsrannsóknum vegna Fjarðarheiðarganga svo hægt verði að hefja framkvæmdir sem allra fyrst. Bæjarstjórn Seyðisfjarðar treystir því að haldið verði áfram með rannsóknirnar á þessu ári.“

Greinargerð:
Vegurinn um Fjarðarheiði er eini akvegurinn til og frá Seyðisfirði. Hann liggur í 620 metra hæð og erfiðri færð sem getur varað stóran hluta ársins. Samgöngur Seyðfirðinga eru því algjörlega orðnar sér á báti. Seyðfirðingar hafa barist fyrir Fjarðarheiðargöngum í meira en 30 ár og því löngu orðið tímabært að hlustað sé á neyðaróp okkar. Seyðfirðingar hafa sýnt mikla biðlund og skilning á nauðsyn annarra jarðganga- og vegaframkvæmda í landinu og stutt heilshugar við þær. Nú er komið að Fjarðarheiðargöngum.

Helstu rök Seyðfirðinga fyrir Fjarðarheiðargöngum eru meðal annars:
• Mikil atvinnu- og skólasókn er yfir Fjarðarheiði í báðar áttir þar sem hluti bæjarbúa sækir vinnu og stundar nám daglega í nágrannabyggðarlögum.
• Ófærð og vandræði á Fjarðarheiðinni standa gjarnan yfir í nokkra daga í senn, dæmi eru um allt að sjö daga samfellt tímabil þar sem erfitt og ómögulegt hefur verið að komast yfir.
• Útköll björgunarsveitanna á Seyðisfirði og Egilsstöðum hafa aukist mjög mikið síðastliðin ár vegna erfiðrar vetrarfærðar á Fjarðarheiði.
• Vetrarþjónusta á heiðinni hefur verið skert þannig að opnunartími er styttri.
• Stór hluti íbúabyggðar á Seyðisfirði er á skilgreindum ofanflóðahættusvæðum. Ef hættuástand skapaðist og/eða snjóflóð féllu eru Seyðfirðingar mjög háðir því að samgöngur um þennan eina akveg séu greiðfærar.
• Margir veigra sér við því að fara yfir heiðina nema hún sé alveg greiðfær og fólk þorir ekki á heiðina vegna hálku, skafrennings og blindu. Þessar aðstæður valda því mikilli einangrun fyrir fjölda fólks.
• Seyðisfjörður er landamærabær og eina vegtenging bílaumferðar til og frá Evrópu liggur þar um.
• Heilsárssiglingar Norrönu hafa mikil áhrif á ferðaþjónusta um allt land samkvæmt rannsókn á þróun ferðaþjónustu á Íslandi. Því er mikilvægt að enn frekar sé hægt að fjölga ferðamönnum sem ekki verður gert nema með öruggum samgöngum um Fjarðarheiði.
• Þeir sem sem nýta fragtþjónustu ferjunnar verða að geta treyst á að koma farmi sínum í skip. Alltof oft hefur það gerst að farmur hefur ekki komist á tilsettum tíma vegna ófærðar. Þetta ógnar heilsárssiglingum verulega.
• Á Egilsstöðum er flugvöllurinn og samspil flugvallar og ferjuhafnar er mjög mikilvægt.
• Öruggar samgöngur frá Seyðisfirði eru nauðsynlegar til að komast í sjúkraflug og á Fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupstað þar sem fæðingardeildin er m.a. staðsett.
• Öruggar samgöngur við flugvöllinn á Egilsstöðum er gríðarlega mikilvægar þegar kemur að öryggi og allri sérfræðiþjónustu lækna við íbúana. Aðgengi að flugvelli er einnig mikilvægt fyrir tengingu við höfuðborgarsvæðið þar sem stærstur hluti opinberrar stjórnsýslu er staðsettur.
• Heilbrigði og öryggi Seyðfirðinga er ógnað vegna tíðrar ófærðar yfir heiðina.
• Löggæsla hefur verið verulega skert á Seyðisfirði og lögreglustöðin hefur m.a. verið lögð niður.
• Íbúar Seyðisfjarðar sækja verslun og opinbera þjónustu í auknum mæli til Egilsstaða.
• Samvinna og samstarf sveitarfélaga hefur aukist verulega, m.a. samstarf um félagsþjónustu, skólaþjónustu og málefni fatlaðra.
• Brunavarnir eru í samstarfi milli Héraðs og Seyðisfjarðar, sem er stórt öryggismál.
• Byggðaþróun hefur ekki verið nógu hagstæð. Óviðunandi samgöngur er stór þáttur í þeirri þróun. Með jarðgöngum stækkar atvinnusvæði Seyðisfjarðar og nágrannabyggðarlaga.
• Forsenda sameiningar sveitafélaga eru bættar samgöngur.