Þingmenn standa með vilja Seyðfirðinga

Á aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Austurlandi, sem haldin var 3.október s.l., var rætt um forgangsröðun jarðganga í fjórðungnum. Á fundinum báðu þingmenn Norðausturkjördæmis bæjarfulltrúa í Fjarðabyggð að rugga ekki bátnum og spilla ekki samstöðu um Fjarðarheiðargöng milli Seyðisfjarðar og Egilsstaða.

Eins og fram kemur í frétt RÚV um málið sagði Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna og fyrrverandi samgönguráðherra, að þingmenn kjördæmisins væru allir sammála um hvar grafa eigi næstu göng á Austurlandi og sagði m.a.: „óskir Seyðfirðinga eru skýrar; það er að fara undir Fjarðarheiði. Afstaða þingmannahópsins er eindregin og skýr. Við styðjum Seyðfirðinga í þeirri ósk og Vegagerðin vinnur að sjálfsögðu að rannsóknum í samræmi við þetta“.

Í endanlegri ályktun frá SSA eru göng undir Fjarðarheiði sett í forgang en rannsóknir á hinum kostinum einnig nefndar á nafn:
“Aðalfundur SSA, haldinn á Djúpavogi dagana 2. og 3. október 2015, leggur þunga áherslu á þá sameiginlegu framtíðarsýn að byggðir á Mið-Austurlandi, Fjarðabyggð, Seyðisfjörður og Fljótsdalshérað, verði tengdar saman með samgöngum til þess að rjúfa vetrareinangrun og efla framtíðarmöguleika svæðisins sem eins atvinnu-og þjónustusvæðis. Fundurinn telur brýnt að tryggja strax á fjárlögum næsta árs fjármagn til að ljúka nauðsynlegum rannsóknum vegna jarðganga undir Fjarðarheiði á milli Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðar, sem er forgangsverkefni í jarðgangnagerð á Austurlandi, enda aðstæður íbúa á Seyðisfirði slíkar á vetrum að ekki verður við það unað lengur. Þá þarf að ráðast í rannsóknir á öðrum gangakostum, á milli Norðfjarðar og Seyðisfjarðar um Mjóafjörð. Lögð er áhersla á að við gerð og uppsetningu samgönguáætlunar og gerð fjárlaga verði jarðgangagerð og rannsóknir vegna þeirra fjármögnuð með sérstökum hætti þannig að aðrar mikilvægar framkvæmdir í samgöngumálum landshlutans dragist ekki sökum fjárskorts”

Í Hádegisfréttum RÚV 6.október 2015 má hlusta á frétt um málið, en fréttin hefst á 17:55 mínútu.

Samanburður hugsanlegra samgöngumynstra. Firðir tengdir saman með jarðgöngum auk tengingar upp á Hérað, annars vegar með göngum undir Mjóafjarðarheiði en hins vegar með göngum undir Fjarðarheiði. Myndin er fengin úr skýrslunni “Fjarðarheiðargöng – Athugun á hugsanlegum munnasvæðum og fleiri þáttum” (2011). Skýrslan var unnin af Eflu verkfræðistofu fyrir Vegagerðina.

Samanburður hugsanlegra samgöngumynstra. Firðir tengdir saman með jarðgöngum auk tengingar
upp á Hérað, annars vegar með göngum undir Mjóafjarðarheiði en hins vegar með göngum undir
Fjarðarheiði.
Myndin er fengin úr skýrslunni “Fjarðarheiðargöng – Athugun á hugsanlegum munnasvæðum og fleiri þáttum” (2011). Skýrslan var unnin af Eflu verkfræðistofu fyrir Vegagerðina.