Nefndarálit umhverfis- og samgöngunefndar

Í nefndaráliti um tillögu til þingsályktunar um fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2015-2018 frá meirihluta umhverfis- og samgöngunefndar kemur fram að svigrúm sé til staðar til þess að hefja gerð Seyðisfjarðarganga samhliða gerð Dýrafjarðarganga. Áætlað er að framkvæmdir hefjist við Dýarfjarðargöng að loknum Norðfjarðargöngum.

Í nefndarálitinu stendur:
“Jarðgöng.
Nú er unnið að framkvæmdum við gerð Norðfjarðarganga. Framkvæmdir hófust árið 2013 og áætlað er að þeim ljúki 2017. Er þá lagt til að framkvæmdir verði hafnar við Dýrafjarðar­göng milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar á Vestfjörðum. Meiri hlutinn áréttar að svo að hægt verði að hefja framkvæmdir við Dýrafjarðargöng þurfi heimild í fjárlögum og samþykkta samgönguáætlun. Þá er á árunum 2015–2018 gert ráð fyrir að unnið verði að jarðfræði­rannsóknum í væntanlegu gangastæði Seyðisfjarðarganga en meiri hlutinn telur að svigrúm sé nú til staðar til að hefja gerð Seyðisfjarðarganga samhliða gerð Dýrafjarðarganga.”

Í nefndarálitinu kemur einnig fram að jarðgöng gegni miklu mikilvægi fyrir tengingu byggðalaga og stækkun atvinnusvæða og sé í raun einnig mikilvægt kynjajafnréttismál. Í því ljósi var stuðst við rannsókn sem unnin var við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri, þar sem rannsökuð var staða kynjanna. En rannsóknin bendir til þess að jarðgöng hafi jákvæð áhrif á atvinnutækifæri og atvinnusókn kvenna, þeim standi til boða fjölbreyttari störf. “Þessar vísbendingar um breytt ferðamynstur kvenna eru afar jákvæðar og gefa til kynna að gerð jarðganga á landsbyggðinni þar sem þéttbýliskjarnar eru tengdir betur saman til að skapa stærra atvinnusvæði hafi jákvæð áhrif á jafnrétti kynjanna.”