Sjónvarpsþættirnir Ófærð hjálpa til í baráttunni um gerð Fjarðarheiðarganga.
Vilhjálmur Jónsson, bæjarstjóri Seyðisfjarðar, segir í viðtali við fréttamann Eyjunnar, það alveg öruggt að þáttaröðin Ófærð sem sýnd er í Ríkissjónvarpinu um þessar mundir sé vatn á myllu Seyðfirðinga í baráttunni um göng undir Fjarðarheiði. Þættirnir gerast á Seyðisfirði og eru teknir upp þar að hluta.
Heiðin er erfið yfirferðar í vetrarveðrum en ófært getur verið yfir hana nokkra daga í senn. Þetta veldur heimamönnum vitanlega ýsmum vandræðum, enda þurfa margir Seyðfirðingar að sækja atvinnu og ýmsa þjónustu yfir heiðina. Fjarðarheiði er eini akvegurinn til og frá Seyðisfirði og liggur heiðin hátt, í um 620 metra hæð yfir sjávarmáli á löngum kafla.
Vert er að geta þess að við frumsýningu á þáttunum var ófært yfir Fjarðarheiði, svo aðstæður þáttarins og umhverfi var ansi raunverulegt þegar Seyðfirðingar sátu yfir sjónvarpsskjám sínum og horfðu á fyrsta þátt Ófærðar.